Enski boltinn

Wenger: Sanchez vill leiða Arsenal í titilbaráttunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexis Sanchez.
Alexis Sanchez. Vísir/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er þess fullviss um að Alexis Sanchez muni spila með Arsenal í vetur þrátt fyrir sögusagnir um að hann vilji fara annað. Hann hefur verið orðaður við bæði Manchester City og PSG í Frakklandi.

Sanchez sneri aftur til Lundúna í vikunni eftir að hafa fengið lengra sumarfrí vegna Álfukeppni FIFA í Rússlandi fyrr í sumar.

Hann á aðeins tólf mánuði eftir af samningi sínum við Arsenal og gæti þess vegna farið frítt frá félaginu næsta sumar, ef því tekst ekki að endursemja við leikmanninn öfluga.

„Að sjálfsögðu. Af hverju ekki,“ sagði Wenger þegar hann var spurður um hvort að Sanchez myndi gefa allt sitt á nýju tímabili með Arsenal.

„Ég er sannfærður um að það sé alltaf mönnum fyrir bestu að standa sig vel, jafnvel þó svo að þú eigir lítið eftir af samningi sínum,“ sagði Wenger sem bætti við að Sanchez væri sú týpa sem myndi halda ótrauður áfram.

„Hann er sigurvegari. Hann vill vinna hvern einasta leik sem hann spilar. Hann elskar fótbolta.“

Wenger segir að markmið Arsenla sé að ná 85 stigum í vetur, tíu meira en á síðasta tímabili. „Með því verðum við með í titilbaráttunni,“ sagði hann.

Arsenal komst ekki í Meistaradeild Evrópu en keppir þess í stað í Evrópudeild UEFA í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×