Fótbolti

Rúnar Alex í liði mánaðarins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar og félagar unnu alla fjóra leiki sína í mars.
Rúnar og félagar unnu alla fjóra leiki sína í mars. vísir/getty
Rúnar Alex Rúnarsson var valinn í lið mars-mánaðar í dönsku úrvalsdeildinni af Tipsbladet.

Rúnar Alex hefur spilað alla sex leiki Nordsjælland eftir að danska deildin hófst aftur í febrúar og staðið sig gríðarlega vel.

Liðinu hefur líka gengið vel en Nordsjælland vann alla fjóra leiki sína í mars með markatölunni 12-4.

Auk Rúnars Alex á Nordsjælland fjóra aðra fulltrúa í liði mánaðarins; Andreas Maxsö, Stanislav Lobotka, Godsway Donyoh og Emiliano Marcondes.

Það er mikil samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Nordsjælland en Rúnar Alex heldur m.a. sænska landsliðsmarkverðinum Patrik Carlgren og hollenska unglingalandsliðsmanninum Indy Groothuizen á bekknum.

Þrátt fyrir góða frammistöðu með Nordsjælland var Rúnar Alex ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Kósóvó og Írlandi í lok síðasta mánaðar. Í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn viðurkenndi Rúnar Alex að það hefðu verið vonbrigði að vera ekki valinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×