Körfubolti

Sigurður Gunnar kominn aftur í Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með landsliðinu á dögunum.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í leik með landsliðinu á dögunum. Vísir/Andri Marinó
Grindvíkingar hafa fengið mikinn liðstyrk í karlakörfunni en félagið hefur náð samkomulagi við miðherjann Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í kvöld.

Ólafur Ólafsson og Þorsteinn Finnbogason framlengdu líka báðir samning sína við Grindavík og Þorleifur Ólafsson er nýr aðstoðarþjálfari liðsins en hann lagði skóna á hilluna í vor.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur spilað erlendis undanfarin þrjú tímabil, fyrst eitt tímabil í Svíþjóð og svo tvö undanfarin tímabil í Grikklandi.

Sigurður var í æfingahópi íslenska karlalandsliðsins fyrir Eurobasket en var fórnarlamb síðasta niðurskurðar.

Sigurður er 29 ára gamall og 205 sentímetrar á hæð en hann hóf ferill sinn með KFÍ og kom svo til Keflavíkur 2006. Sigurður snýr nú aftur til Grindavíkur þar sem hann spilaði þrjú tímabil áður en hann fór út í atvinnumennsku.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson spilaði síðast í Domino´s deildinni tímabilið 2013-14 en þá var hann með 15,8 stig, 9,1 frákast og 2,7 stoðsendingar að meðaltali með Grindavík á Íslandsmótinu.

Lið með Sigurð Gunnar Þorsteinsson innanborðs hafa komist fimm sinnum í lokaúrslit á síðustu sjö tímabilum hans hér heima þar af hefur hann þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari (1998, 2012 og 2013).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×