Menning

Ég hef alltaf meiri áhuga á spurningum en svörum

Magnús Guðmundsson skrifar
Alicja Kwade, myndlistarkona spyr heimspekilegra spurninga á sýningu sinni í i8 gallerí.
Alicja Kwade, myndlistarkona spyr heimspekilegra spurninga á sýningu sinni í i8 gallerí. Visir/Anton Brink
Einn trilljónasti úr sekúndum, er yfirskrift sýningar listakonunnar Alicja Kwade sem verður opnuð í i8 galleríi í dag. Alicja Kwade er pólsk og þýsk, búsett í Berlín og á meðal nýlegra einkasýninga hennar má nefna sýningu í Whitechapel Gallery í London, Kunsthalle Schirn í Frankfurt am Main auk fjölmargra fleiri verkefna og samsýninga víða um Evrópu og Bandaríkin.

Alicja Kwade er rólyndisleg og viðkunnanleg kona. Daginn fyrir opnun ætlar hún að nýta til þess að keyra aðeins um landið og segist ekki setja hráslagalegt veðrið fyrir sig enda hafi hún heyrt þetta sé sérdeilis íslenskt. Alicja hefur þó ekki mikinn tími til þess að skoða Ísland að þessu sinni en það leiðir spjallið að titli sýningarinnar og hvort tíminn sé lykilþáttur í hennar verkum. „Nei, hann er mikilvægur en engu að síður þá hverfast þessi verk ekki um tímann. En auðvitað skiptir tíminn okkur alltaf miklu máli og þá líka í allri sköpun en fyrir mér er hann aðeins eitt af því sem skapar ákveðinn veruleika.“

Visir/Anton Brink
Alicja skapar sín verk úr hlutum sem hafa átt samleið með henni á lífsleiðinni. Tölva, lampi, spegill – allt geta þetta verið kyrralífsmyndir samtímans en hugmyndin byggir á því að efniviðurinn birti sjálfsævisögulegt innihald listamannsins. „Efniviðurinn samanstendur af hlutum sem ég hef lengi verið að vinna með í minni sköpun. Hlutir eins og lampi og tölva sem hafa fylgt mér lengi. Eldri verkin byggja á því að þessir nytjahlutir eru í raun malaðir mélinu smærra, svo aðskil ég þau efni sem þeir eru búnir til úr, og loks endurmóta ég þá í gerbreyttri mynd. Efnismassi hlutanna breytist ekki í þessu ferli heldur verða þeir að dufti sem ég vinn með og gef svo nýtt form, nýja lögun og tilgang. Þannig verður hlutur sem hefur tengst mér eða öllu heldur þjónað mér á lífsleiðinni að einhverju allt öðru en úr sama efninu.“ Verk Alicju eru einkar falleg í forminu og hún segir að vissulega hafi ákveðnir hlutir gert ákveðið tilkall til þess að snúa aftur í ákveðnu formi. „Tölvan mín hefur núna tekið á sig klassíkst form, antík-form, en ég er ekki að skapa þetta í ákveðnum stíl eða sem eftirmyndir heldur fremur að leitast við að finna kjarna þessara forma. Í rauninni skoðaði ég mikið af formum víða að úr heiminum og vann þetta svo út frá því.“

Á sýningunni eru einnig verk sem virðast hafa sterka skírskotun inn í heim hins mælanlega; stærðfræðinnar og eðlisfræðinnar en Alicja segir að verk hennar snúist í raun ekki um slík vísindi heldur fremur leitist hún við að draga allar þessar eigindir saman. „Hvers vegna er efni eins og það er? Hvers vegna erum við hér? Hvers vegna erum við til og eins og við erum? Hvers vegna hugsum við um veruleikann? Allar þessar spurningar og auðvitað miklu fleiri. Viðfang þessara spurninga getur verið tíminn en líka tungumálið, samfélagið og allt það sem við sjáum sem ákveðinn veruleika. Það þarf allt þetta til.“ 

Er það kjarni þeirra verka sem þú vinnur með klukkuvísum og mögulegum vísunum í plánetur? „Fyrir mér eru þetta allt ákveðnar línur, ákveðnar víddir sem geta í raun aldrei mæst. Fyrirbæri sem renna aldrei saman heldur verða að vera á sinni línu, í sinni vídd. Þannig er líka komið fyrir okkur í þessu lífi, við erum bundin af okkar vídd, tíma og efni. Við erum föst á okkar línu.

Fyrir mér snýst þessi sýning þannig fyrst og fremst um þá heimspekilegu spurningu: Hvað er efni? Þess vegna skipta líka titlar verkanna miklu máli því það sem þú sérð er pottur en verkið heitir lampi. Þú sérð vasa og hann heitir klukkur. Þess vegna er þetta líka um tungumálið og okkur sem manneskjur og hvernig við skilgreinum allt. En það er eitthvað sem við gerum eftir formum, notagildi og í ákveðnum tíma og þess vegna skipta allar þessar eigindir máli. Skipta okkur máli og hvernig við skilgreinum veröldina sem við getum kallað okkar vídd.“

En er þá til að mynda trúin ákveðin þörf fyrir að víkja af þessari vídd eða að minnsta kosti tengjast annarri? „Trúin er eitthvað sem ég ætti að hafa áhuga á í þeim skilningi að í henni er fólgin leit að einhverjum veruleika. En fyrir mér er eitthvað of einfalt við þetta. Vandinn er að ég trúi ekki. Verkin mín snúast miklu fremur um það að hafna trú, að trúa engu og efast um allt. Ég sem listamaður lít á mig sem eins konar landkönnuð en trúin er vissulega forvitnilegt fyrirbæri sem er áhugavert að skoða og leitast við að skilja. Enda hef ég alltaf meiri áhuga á spurningunum en svörunum.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.