Fótbolti

Stjarnan hefur leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stjarnan er fulltrúi Pepsi-deildar kvenna í Meistaradeild Evrópu þetta árið.
Stjarnan er fulltrúi Pepsi-deildar kvenna í Meistaradeild Evrópu þetta árið. Vísir
Íslandsmeistarar Stjörnunnar hefja í dag leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en liðið mætir þá KÍ Klaksvík frá Færeyjum.

Stjarnan er í 7. riðli forkeppninnar ásamt KÍ, Istatov frá Makedóníu og Osijek frá Króatíu þar sem allir leikirnir í riðlinum fara fram. Efsta liðið í hverjum riðli kemst áfram í 32-liða úrslit keppninnar.

Stjarnan leikur næst gegn Istatov á föstudag og að síðustu gegn heimamönnum í Osijek á mánudag.

Ferðalagið til Króatíu gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig þar sem að einn leikmaður Stjörnunnar, Imen Troudi, fékk ekki inngöngu í Ungverjaland, þar sem hópurinn var staddur á leið sinni til Króatíu í gær.

Einar Páll Tamimi, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, sagði þó við mbl.is að hann reiknaði með því að Troudi, sem er túniskur ríkisborgari, myndi fá vegabréfsáritun í dag og komast þá áfram til Króatíu.

Leikur Stjörnunnar og KÍ hefst klukkan 14.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×