Innlent

Birta 300 til 400 þúsund reikninga ríkisins á netinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Með þessu hyggst ríkisstjórnin „stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins.“
Með þessu hyggst ríkisstjórnin „stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins.“ Vísir/Valli
Stefnt er að því að árlega verði birtir 300 til 400 þúsund reikninga vegna kaupa ríkisins á vörum á þjónustu. Reikningarnir verða birtir á vefnum opnirreikningar.is sem opnar um miðjan mars. Með þessu hyggst ríkisstjórnin „stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins.“

Í tilkynningu frá fjármála- og efnhagsráðuneytinu segir að á vefnum verði hægt að leita að reikningum eftir ýmsum leiðum, til dæmis út frá stofnunum eða tegund kostnaðar.

Á vefnum verða ennfremur birt skönnuð fylgiskjöl með reikningum og segir í tilkynningunni að með því gangi Ísland lengra en önnur ríki sem unnið hafi svipuð verkefni.

Vinna við verkefnið hófst á síðasta ári og er að mestu lokið en sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og sérstakar síur koma í veg fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar birtist.

Í fyrstu verða upplýsingar frá aðalskrifstofum ráðuneyta aðgengilegar á nýja vefnum. Í næstu áföngum verða stofnanir í A-hluta ríkissjóðs hluti af kerfinu. Stefnt er að því að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda um áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×