Enski boltinn

Clement líkir Gylfa við Lampard og segir hann betri en leikmenn hjá Bayern og Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er lang mikilvægasti leikmaður Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson er lang mikilvægasti leikmaður Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, virðist annað árið í röð ætla að bjarga Swansea frá falli úr ensku úrvalsdeildinni en hann er nú búinn að skora sigurmörk í tveimur leikjum í röð á móti Liverpool og Southampton. Swansea er nú komið úr fallsæti.

Gylfi er í heildina búinn að skora sjö mörk og leggja upp önnur sjö fyrir velska liðið og þannig koma með beinum hætti að fjórtán af 28 mörkum Swansea eða helmingi marka þess á tímabilinu. Hann er ásamt Adam Lallana hjá Liverpool sá miðjumaður í deildinni sem skapar flest mörk fyrir sitt lið.

Sjá einnig:Aðeins Diego Costa og Zlatan hafa halað inn fleiri stigum fyrir sín lið en Gylfi Þór

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, var spurður út í frammistöðu Gylfa Þórs upp á síðkastið á blaðamannafundi í gær fyrir leik liðsins á móti Manchester City um helgina. Clement hafði eðlilega ekkert nema góða hluti um Hafnfirðinginn að segja.

„Ég hef séð verri leikmenn en Gylfa spila með sumum þeirra liða sem ég hef starfað hjá,“ sagði Clement en hann hefur verið aðstoðarþjálfari hjá Chelsea, Real Madrid og nú síðast Bayern München og umgengist suma af bestu leikmönnum heims.

Gylfi Þór var sagður á útleið frá Swansea í janúarmánuði en West Ham, Everton og Southampton voru sterklega orðuð við miðjumanninn. Þá hafnaði Swansea stóru tilboði frá Kína undir lok félagaskiptagluggans í Gylfa Þór sem hefur sjálfur sagst ekkert vera að hugsa um að fara strax.

„Hann er góður leikmaður. Ég sé bara mann sem er algjörlega einbeittur á að standa sig fyrir liðið sitt og félagið,“ sagði Clement.

„Eitt það magnaðasta við Gylfa er hversu mikið hann leggur á sig. Hann er ekki ólíkur Frank Lampard sem leikmaður. Hann reynir á hverjum degi að vera besta útgáfan af sjálfum sér,“ sagði Paul Clement.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×