Fótbolti

Leikmenn Danmerkur í verkfall og landsleik aflýst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danska liðið sló í gegn á EM í sumar.
Danska liðið sló í gegn á EM í sumar. Vísir/Getty
Leikmenn danska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eru nú í verkfalli vegna deilna við knattspyrnusambandið um nýjan samning leikmanna.

Vegna þessa hefur vináttulandsleik Dana og Hollendinga sem átti að fara fram á föstudag verið aflýst. Þessi sömu lið áttust við í úrslitaleiknum á EM í sumar þar sem Hollendingar höfðu betur.

Leikmenn danska liðsins áttu að mæta á æfingu í gær en létu ekki sjá sig. Viðræður um nýjan samning hafa siglt í strand en dönsku leikmennirnir vilja samning þar sem leikmenn eru launþegar hjá danska sambandinu.

Samningaviðræðurnar hafa staðið yfir í hálft ár en engan árangur borið. Leikmenn og fulltrúar þeirra fara fram á mun hærri upphæðir en danska sambandið er reiðubúið að greiða, samkvæmt dönskum fjölmiðlum.

Það var uppselt á leikinn gegn Hollandi en ljóst að ekkert verður af honum. Þá er leikur Dana og Ungverjalands í undankeppni HM 2019 í uppnámi en hann á að fara fram í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×