Innlent

Vilja koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu á róló

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Margrét Norðdahl, formaður hverfisráðs Hlíða.
Margrét Norðdahl, formaður hverfisráðs Hlíða.
Hverfisráð Hlíða hefur óskað eftir því að farið verði í aðgerðir til að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu á Njálsgöturóló. Formaður ráðsins segir áhöld til neyslu ítrekað finnast á vellinum.

Reglulega finnast áhöld til fíkniefnaneyslu á leikvöllum borgarinnar en fréttastofa leit við á nokkrum í dag og fann meðal annars sprautu, lyfjaumbúðir og hníf.

Mál af þessum toga hafa ítrekað komið upp á Njálsgöturóló og hefur hverfisráð Hlíða óskað eftir því við Reykjavíkurborg að farið verði í aðgerðir til að koma í veg fyrir neyslu.

„Það hafa fundist hérna áhöld til fíkniefnaneyslu. Það eru dagforeldrar hérna sem grisja svæðið og sömleiðis íbúar í hverfinu sem hafa rekist á það," segir Margrét Norðdahl, formaður hverfisráðs Hlíða.

„Það væri hægt að bæta lýsingu hérna, mögulega setja upp eftirlitsmyndavél, grisja gróðurinn eða jafnvel taka hluta af veggnum sem myndar svolítið skuggsælt skjól," segir Margrét.

Hvatinn að þessu er að fólk í hverfinu stofnaði vinafélag leikvallarins og hefur verið að hlúa að honum. Reykjavíkurborg hefur síðastliðið ár boðið íbúum að stofna félög og taka leikvelli og önnur opin svæði í fóstur. Félögin geta sótt um styrki til borgarinnar og hafa nokkur slík félög þegar verið stofnuð.

„Auðvitað þekkja íbúar sín hverfi og sitt nærumhverfi best og geta komið því áleiðis hvað þau vilja leggja áherslu á," segir Margrét.

Hún bendir fólki sem finnur eitthvað misjafnt á leikvöllum að láta vita til þess að hægt sé að bregðast við. 

„Til dæmis hverfamiðstöðvar, eða þjónustumiðstöð, utangarðsteymið eða jafnvel lögreglu líka," segir Margrét að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×