Innlent

Röndóttir fuglar vekja furðu í Þingeyjarsýslu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kvenfélagskonurnar Friðrika Baldvinsdóttir og Lilja Skarphéðinsdóttir sýndu fréttamanni röndóttu endurnar í skrúðgarðinum á Húsavík.
Kvenfélagskonurnar Friðrika Baldvinsdóttir og Lilja Skarphéðinsdóttir sýndu fréttamanni röndóttu endurnar í skrúðgarðinum á Húsavík. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Tvær litskrúðugar endur hafa haldið til í skrúðgarðinum á Húsavík frá því í fyrravetur og vekja mikla athygli. Bæjarbúar sjást iðulega liggja á tjarnarbakkanum til að ná myndum af þessum óvenjulega fögru fuglum. Myndir af þeim voru sýndar í fréttum Stöðvar 2. 

Skrúðgarðurinn er leynd perla meðfram Búðará í hjarta Húsavíkur sem kvenfélagskonur beittu sér fyrir að yrði ræktaður upp fyrir rúmum fjörutíu árum. Tvær úr þeirra hópi, þær Friðrika Baldvinsdóttir og Lilja Skarphéðinsdóttir, vekja athygli okkar á sjaldséðum gestum sem glatt hafa Húsvíkinga með nærveru sinni síðustu misseri.

Mandarínsteggirnir tveir hafa haldið til í skrúðgarðinum á Húsavík undanfarna mánuði.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
 „Þetta er mandarínendur sem eru búnar að halda hérna til, allavega í allan vetur, síðan í fyrrahaust held ég frekar en vor, og vekja mikla athygli,” segir Friðrika. 

„Hér hafa menn legið á bakkanum hérna við að reyna að ná myndum af þeim því þær þykja svo merkilegar. Þetta eru einhverjir flækingar hérna.” 

Mandarínendur eru, eins og nafnið bendir til, ættaðar frá Austur-Asíu, en aðalheimkynni þeirra eru í löndum eins og Kína og Japan. Það er þó líklegast að þessar komi frá Bretlandseyjum eða Norður-Evrópu en vegna skrautlegs útlits voru margar fluttar í evrópska andagarða á tuttugustu öld þaðan sem þær hafa breiðst út.

Mandarínblikar eru afar litskrúðugir, með rauðan gogg, hvíta augnumgjörð, fjólubláa bringu og appelsínugult bak, og svo hinar óvenjulegu rendur.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Þessar tvær eru steggir en karlfuglarnir eru mun litskrúðugari og þekkjast á lóðréttum röndum. Þeir hafa rauðan gogg, hvíta flekki í kringum augun og rauðleitt andlit. Bringan er fjólublá með lóðréttu röndunum og bakið er appelsínugult. 

„Þær eru alveg rosalega fallegar, litfagrar og skrautlegar,” segir Friðrika. 

„Þær kunna vel við sig á Húsavík líka, greinilega,” segir Lilja. 

„Og völdu sér skrúðgarðinn,” bætir Friðrika við en kvenfélagskonur eru stoltar af garðinum.

Þær Lilja og Friðrika sýna hvar mandarínendurnar synda meðal annarra anda í skrúðgarðinum á Húsavík.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Þetta er paradísin. Hér má enginn fara án þess að skoða þessa paradís hér. Þetta er staðurinn, hvort heldur er vetur eða sumar.” 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×