Innlent

Brotið á réttindum norsks blaðamanns

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Nordicphotos/AFP
Cecilie Becker, norskur blaðamaður á vefmiðli dagblaðsins Dagens Nœringsliv, vann á fimmtudag tjáningarfrelsismál gegn norska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Henni hafði verið gert að bera vitni í markaðsmisnotkunarmáli sem höfðað var gegn heimildarmanni hennar.

Ágreiningi um vitnisburð hennar lauk með dómsúrskurði þar sem henni var gert skylt að bera vitni. Í úrskurðinum var sérstaklega bent á að engin ástæða væri lengur til að halda heimildarmanninum leyndum þar sem heimildarmaðurinn hafði þegar greint lögreglu frá samskiptum sínum við blaðamanninn. Þegar úrskurðurinn féll var hins vegar þegar búið að sakfella manninn fyrir markaðsmisnotkun og því kom aldrei til vitnisburðarins.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins var bent á að neitun hennar á að gefa upp heimildarmann sinn, hindraði á engan hátt rannsókn málsins enda tókst að upplýsa það án vitnisburðar hennar.

Mannréttindadómstóllinn taldi að brotið hefði verið gegn rétti blaðamannsins til að halda heimildarmanni sínum leyndum í andstöðu við 10. gr. Mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi. Þennan rétt blaðamanna mætti hvorki skerða með vísan til háttsemi heimildarmannsins sjálfs eða þess að upp hefði komist hver hann væri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×