Þessi athöfn átti raunar að fara fram fyrir átta árum. „Svo kom hrun. Það var meira að segja, skilst mér, búið að draga pennana á loft,“ sagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
Og nú var loksins komið að því. Vegamálastjóri undirritaði samning við pólsku skipasmíðastöðina Crist um að smíða nýja Vestmannaeyjaferju fyrir 3,2 milljarða króna.

Gamli Herjólfur er orðinn 25 ára gamall en ferjan sem leysir hann af verður álíka stór en grunnristari. Hún verður jafnframt með skrúfubúnaði sem á að auðvelda skipstjórum að stýra inn í Landeyjahöfn. Vegagerðin vonast til að nýting hafnarinnar aukist um 40 prósent.
„Hún fer vonandi frá 60 til 65 prósent, eins og hún er í dag, upp í það að vera 80 til 90 prósent,“ sagði Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar.

Þetta hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulífið. Eins og á Íslandi almennt hefur ferðaþjónustan vaxið mikið í Vestmannaeyjum þannig að við sjáum fram á að ferðaþjónustunni muni vaxa enn frekar fiskur um hrygg,“ sagði Hildur Sólveig.
Ef áætlanir ganga eftir vonast menn til að geta boðið upp á nýja ferju á þjóðhátíð 2018.
