Í viðtali við CNBC-sjónvarpsstöðina var Perry spurður að því hvort að hann tryði því að koltvísýringur væri „aðalstjórnrofi hitastigs á jörðinni og loftslagsins“. Því neitaði ráðherrann, að því er kemur fram í frétt Washington Post.
„Nei, höfin og umhverfið sem við búum í eru líklega aðalstjórnrofarnir,“ sagði Perry sem hélt því einnig fram að umræðan ætti ekki að snúast um hvort loftslagsbreytingar ættu sér stað heldur hversu mikinn þátt menn ættu í þeim.
Þvert á vísindalega þekkingu
Sjónarmið Perry eru samhljóða þeim sem Scott Pruitt, forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA), lýsti í viðtali í mars. Þau ganga hins vegar þvert gegn niðurstöðum vísindamanna EPA, bandarísku Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) og loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Einhugur er á meðal vísindamanna um að hnattræn hlýnun sem hefur átt sér stað síðustu öldina sé af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum eins og koltvísýringi, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti.

Sem orkumálaráðherra fer Perry með mál sem varða baráttuna gegn loftslagsbreytingum með beinum hætti. Ráðuneyti hans hefur þannig skorið niður verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku frá því að hann tók við embætti fyrr á þessu ári.
Pruitt hefur sömuleiðis látið fjarlægja efni um loftslagsbreytingar og orsakir þeirra af vefsíðu EPA. Bandarískir fjölmiðlar greina einnig frá því í dag að Umhverfisstofnunin ætli að losa sig við 1.200 starfsmenn í sumar. Það myndi fækka starfsmönnum stofnunarinnar um 8%.
Trump tilkynnti um mánaðamótin að hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Hann sækist einnig eftir 31% niðurskurði á framlögum til EPA, mesta niðurskurði nokkrar ríkisstofnunar. Hann hefur lýst loftslagsbreytingum sem „kínversku gabbi“.