Innlent

Ruddist inn og réðist á fyrrum leigusala sína

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa komið inn til hjónanna umræddan dag.
Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa komið inn til hjónanna umræddan dag. Vísir/Hari
Fimmtugur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í síðasta mánuði dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, fyrir að hafa brotist inn á heimili fyrrum leigusala sinna, hjóna, og ráðist á þá árið 2015. Manninum var gert að greiða hjónunum samtals 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Veittist að leigusalanum með vasaljósi

Árásarmanninum var gefið að sök að hafa ruðst inn á heimili hjónanna og veist að hinum manninum með vasaljósi. Þegar hann hafi misst vasaljósið hafi hann kýlt manninn í höfuðið og víðs vegar um líkamann, og sparkað í hann þegar hann féll í gólfið. Maðurinn hlaut áverka á höfði, andliti og víðar.

Þá var hann sagður hafa kýlt konuna með tveimur höggum í hægri hönd og á vinstri hönd með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka á höfði.

Maðurinn neitaði alfarið sök og sagðist ekki hafa komið inn til hjónanna.

Atvikið átti sér stað í ágúst 2015. Hjónin tilkynntu lögreglu um að ákærði hefði komið að heimili þeirra, en maðurinn leigði af þeim íbúð um tíu mánaða skeið. Hjónin sögðu manninn hafa hringt dyrabjöllunni og um leið og opnað hafi verið hafi hann ruðst inn og ráðist að þeim. Töldu þau árásina tengjast innbroti og tjóni sem maðurinn hafði tilkynnt um þegar hann bjó í húsinu, en þau töldu manninn hafa sviðsett innbrotið. Þau hafi fengið hluta af tjóninu bætt en ákveðið að krefja manninn ekki um mismuninn.

Ruddist inn eins og villidýr

Hjónin sögðust aldrei hafa boðið manninum inn enda hafi ekki til þess komið. Hann hafi ruðst inn eins og villidýr, öskrandi með vasaljósið reitt til höggs.

Lögreglan var kvödd að heimili hjónanna rétt fyrir klukkan 14 sunnudaginn 23. ágúst 2015. Samkvæmt frumskýrslu hennar höfðu húsgögn og húsmunir færst úr stað og glerbrot var á gólfi. Þá var blóðkám víða um húsið.

Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir, og mun refsing falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi maðurinn skilorði.

Dómurinn í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×