Erlent

Moïses sigraði í forsetakosningunum á Haítí

Atli Ísleifsson skrifar
Jovenel Moïse.
Jovenel Moïse. Vísir/AFP
Jovenel Moïse vann sigur í forsetakosningunum á Haítí sem fram fóru í nóvember og mun hann taka við embættinu af Jocelerme Privert þann 7. febrúar.

Opinberar lokatölur voru birtar fyrr í dag þar sem kemur fram að Moïse hafi hlotið 55,6 prósent atkvæða.

Í frétt SVT segir að Privert hafi gegnt forsetaembættinu til bráðabirgða í um ár eftir að Michel Martelly sagði af sér embætti.

Forsetakosningar sem fram fóru í landinu í október 2015 voru dæmdar ógildar eftir að opinber rannsóknarnefnd benti á galla við framkvæmd kosninganna. Kosningar áttu svo að fara fram í október 2016 en þeim var frestað þegar fellibylurinn Matthew gekk yfir landið.

Einhverjar ábendingar hafa borist um meint kosningasvindl en eftirlitsmenn virðast í heildina vera nokkuð ánægðir með framkvæmd kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×