Erlent

Zuckerberg hyggst þræða ríki Bandaríkjanna á nýju ári

Atli Ísleifsson skrifar
Vangaveltur eru uppi um að á meðal framtíðarmarkmiða Zuckerberg kunni að vera að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna.
Vangaveltur eru uppi um að á meðal framtíðarmarkmiða Zuckerberg kunni að vera að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, hefur sagst vilja þræða Bandaríkin á nýju ári þannig að hann „hafi heimsótt og hitt fólk í öllum ríkjum Bandaríkjanna.“

Zuckerberg kynnti áætlanir sínar fyrir 2017 í Facebook-færslu í gær, en hann hefur á síðustu árum sett sér markmið fyrir komandi ár – svo sem að hlaupa 365 mílur á árinu, lesa 25 bækur og að læra mandarín.

Í færslunni kemur fram að hann þurfi að ferðast til um þrjátíu ríkja til að ná markmiðinu.

„Eftir stormasamt ár, vonast ég til að geta farið meira út meðal fólks og rætt við það um hvernig það hafa það, vinni og hugsi um framtíðina,“ segir Zuckerberg.

Áfram hélt hann og sagði að tækniframfarir og alþjóðavæðingin hafi aukið tengsl manna og framleiðni, en breytingarnar hafi einnig gert lífið erfiðara fyrir hóp fólks. „Þetta hefur stuðlað að meiri aðgreiningu meðal fólks en ég hef áður fundið fyrir á minni lífsleið. Við verðum að finna leið til að breyta leiknum svo þetta virki fyrir alla.“

Zuckerberg segir að ferðalög hans um Bandaríkin komi til með að taka á sig ýmsar myndir – bílferðir með eiginkonu sinni, Pricillu, heimsóknir í smábæjum og háskólum, heimsóknir til skrifstofa Facebook víðs vegar um Bandaríkin, fundir með kennurum og vísindamönnum og áfram mætti telja.

Í frétt BBC segir að vangaveltur séu nú uppi um að á meðal framtíðarmarkmiða Zuckerberg kunni að vera að bjóða sig fram til forseta. Þannig á að hann að hafa leitað svara við hvernig hann gæti áfram átt Facebook - tæki hann að sér starf fyrir bandaríska ríkið.

Þá var greint frá því í síðustu viku að hann telji sig ekki lengur vera trúlausan. Fékk hann spurningu á Facebook um hvort hann væri enn trúlaus. Svaraði hann: „Nei. Ég ólst upp í gyðingatrú og fór svo í gegnum tímabil þar sem ég dró hluti í efa, en nú tel ég trú vera mjög mikilvæga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×