Innlent

Beint af fæðingardeildinni í húsnæði Kvennaathvarfsins

Benedikt Bóas skrifar
Sú yngsta sem kom í kvennaatkvarfið var 15 ára en sú elsta 82 ára. Alls bjuggu 340 börn undir 18 ára aldri á ofbeldisheimilunum.
Sú yngsta sem kom í kvennaatkvarfið var 15 ára en sú elsta 82 ára. Alls bjuggu 340 börn undir 18 ára aldri á ofbeldisheimilunum. vísir/getty
Í skýrslu Kvennaathvarfsins fyrir árið 2016 kemur fram að á nýliðnu ári dvöldu 195 íbúar í Kvennaathvarfinu, 116 konur og 79 börn. Að meðaltali dvöldu 18 íbúar í húsinu á degi hverjum, níu konur og níu börn, en aðeins einu sinni í 34 ára sögu athvarfsins hefur þetta meðaltal verið hærra. Sum börn voru aðeins nokkura daga gömul þegar þau komu og sum komu beint af fæðingardeildinni.

Elsta konan sem kom í viðtal eða dvöl var 86 ára en sú yngsta aðeins 15 ára. Konurnar komu frá 39 löndum en 70 prósent sem leituðu á náðir athvarfsins voru íslenskar, þar af voru um 70 prósent af þeim af höfuðborgarsvæðinu. Konur af erlendum uppruna dvelja alla jafna lengur í athvarfinu. Fleiri konur en áður fóru úr landi og er þar um að ræða konur af erlendum uppruna sem fóru aftur til heimalandsins.

Konurnar voru oftast að flýja ofbeldi en um 80 prósent ofbeldismannanna voru Íslendingar. Ofbeldis­mennirnir voru á aldrinum 18-82 ára.

Konur og börn dvöldu í athvarfinu allt frá einum degi upp í 205 daga. Konur dvöldu að meðaltali í 28 daga og hefur meðaldvöl aldrei verið lengri. Konur með börn dvöldu alla jafna lengur en að meðaltali dvaldi hvert barn í athvarfinu í 41 dag.

Um 22 prósent kvennanna voru með líkamlega áverka við komuna. Fleiri konur en áður koma vegna hvatningar frá lögreglu og/eða félagsráðgjafa.

Á ofbeldisheimilunum sem konurnar komu frá bjuggu að minnsta kosti 340 börn undir 18 ára aldri. Í skýrslunni segir að innan við 30 prósent þeirra hafi fengið einhverja hjálp til að takast á við afleiðingar ofbeldisins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×