Innlent

Vinnuhópur um endurnýjun ökuréttinda

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tveir létust í umferðinni árið 2015 skömmu eftir að hafa endurnýjað ökuréttindi sín. Báðir glímdu við heilbrigðisvanda.
Tveir létust í umferðinni árið 2015 skömmu eftir að hafa endurnýjað ökuréttindi sín. Báðir glímdu við heilbrigðisvanda. vísir/ernir
Heilbrigðisráðherra hefur falið landlækni að skipa vinnuhóp til að fjalla um ökuleyfi og veikindi og hvernig sé hægt að bæta skipulag hvað þau mál varðar. Með þessu vill ráðherra bregðast við athugasemdum Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Í tveimur nýlegum skýrslum nefndarinnar var fjallað um tvö banaslys þar sem ökumenn, sem glímdu við heilbrigðisvanda, létust eftir umferðarslys. Þeir höfðu báðir nýlega endurnýjað ökuréttindi sín.

Vegna þessa lagði nefndin til að verkferlar í tengslum við ákvæði um heilbrigðiskröfur yrðu kannaðir. Einnig er lagt til að aðstandendur sjúklinga geti tilkynnt yfirvöldum ef grunur leikur á að ökuhæfi einstaklings sé skert vegna veikinda.

Vinnuhópur landlæknis skal skila tillögum til heilbrigðisráðherra fyrir 1. júní 2017.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×