Erlent

Sonur Trump gefur þingnefnd skýrslu á morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögmaður Trump yngri segir hann þakklátan fyrir að fá tækifæri til að hjálpa þingnefndinni.
Lögmaður Trump yngri segir hann þakklátan fyrir að fá tækifæri til að hjálpa þingnefndinni. Vísir/AFP
Donald Trump yngri, elsti sonur Bandaríkjaforseta, svarar spurningum fulltrúa í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á morgun. Nefndin rannsakar ásakanir um að rússnesk stjórnvöld hafi haft afskipti af forsetakosningunum vestanhafs í fyrra.

Reuters-fréttastofan segir að Trump yngri hafi verið boðið að bera vitni fyrir opnum dyrum í júlí en að hann hafi komist að samkomulagi við nefndarmenn um að ræða við þá fyrir luktum dyrum síðar.

Nokkrar þingnefndir Bandaríkjaþings rannsaka nú afskipti Rússa af kosningunum og hvort að þeir hafi mögulega átt samráð við bandamenn Trump þegar hann var frambjóðandi. Bandaríska leyniþjónustan segir að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar til að tryggja kjör Trump.

Meint samráð er einnig til rannsóknar hjá Robert Mueller, sérstökum rannsakanda dómsmálaráðuneytisins.

Hafði verið lofað skaðlegum upplýsingum um Clinton

Trump yngri komst í sviðsljósið í tengslum við rannsóknina fyrr í sumar þegar í ljós kom að hann hefði samþykkt og komið á fundi með rússneskum lögmanni sem hafði lofað skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður hans. Honum hafði jafnframt verið sagt í tölvupósti að það væri liður í herferð rússneskra stjórnvalda til að hjálpa forsetaframboði Trump eldri.

Paul Manafort, þáverandi kosningastjóri Trump, og Jared Kushner, tengdasonur hans, voru einnig viðstaddir fundinn.

Búist er við að Trump yngri komi einnig fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar síðar á þessu ári til að svara spurningum um samskipti framboðsins við Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×