Eigendur leigufélagsins Vellir 15 ehf., sem á samtals um 180 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, hafa sett félagið í formlegt söluferli. Til stendur að selja allt hlutafé í félaginu, en það er að stærstum hluta í eigu Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins, og ÓDT ráðgjafa, sem er í eigu stærstu hluthafa hótelkeðjunnar.
Það er fyrirtækjaráðgjöf verðbréfafyrirtækisins Virðingar sem hefur umsjón með söluferlinu, samkvæmt heimildum Markaðarins. Áætlað kaupverð fyrir allt fasteignasafnið gæti verið um 3 til 3,5 milljarðar króna.
Leigufélagið á um 180 íbúðir en um 70 prósent þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Hverfið hefur byggst hratt upp að undanförnu og búa þar um 4.300 manns. Er stærsti hluti íbúanna fjölskyldufólk á aldrinum 21-40 ára.
Fram kom í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans fyrr á árinu að fasteignaverð hafi hækkað hratt í hverfinu, samhliða aukinni uppbyggingu, en hækkunin nam til dæmis liðlega sautján prósentum árið 2015. Sé litið til áranna 2014 til 2016 hækkaði fasteignaverðið á Völlunum um hátt í þrjátíu prósent.
14,4 milljóna tap varð af rekstri Valla 15 árið 2015 og jókst tapið um rúmar tíu milljónir á milli ára. Eigið fé félagsins var 718,5 milljónir í lok árs 2015 og var eiginfjárhlutfallið um 31 prósent. Átti félagið þá fasteignir sem voru bókfærðar á 2,3 milljarða króna í ársreikningi þess.
Félagið hefur ekki skilað ársreikningi fyrir síðasta ár.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Leigufélag með 180 íbúðir sett í söluferli
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Jón segir bull að FBI-kempa hafi óvænt bankað upp á með stefnu
Viðskipti innlent

Semja við Ístak um gerð mannvirkja fyrir fyrsta vindorkuver landsins
Viðskipti innlent


Starfsfólk truflað á tveggja mínútna fresti
Atvinnulíf

Pizzur í stað smurbrauðs á nýrri Króníku
Viðskipti innlent

Gefur eftir í tollastríði við Kína
Viðskipti erlent

Notendur þurfi að bregðast við vilji þeir ekki að gögn verði notuð
Viðskipti erlent


Ummæli Trumps um „meiriháttar lúser“ leggjast illa í markaðinn
Viðskipti erlent

Kalifornía fjórða öflugasta efnahagsríki heims
Viðskipti erlent