Erlent

Prinsarnir minnast hinsta símtalsins við móður sína

Atli Ísleifsson skrifar
Díana prinsessa og synir hennar, Harry og Vilhjálmur, árið 1995.
Díana prinsessa og synir hennar, Harry og Vilhjálmur, árið 1995. Vísir/Getty
Bresku prinsarnir Vilhjálmur og Harry minnast síðasta símtalsins sem þeir áttu við móður sína, Díönu prinsessu, áður en hún lét lífið í bílslysi í París fyrir nærri tuttugu árum, í nýrri heimildarmynd ITV sem sýnd verður í bresku sjónvarpi á morgun.

Í frétt BBC kemur fram að þeir segjast hafa rætt stuttlega við móður sína í síma, sama dag og hún lést.

„Ég man ekki almennilega hvað ég sagði en það sem ég man er að ég mun að öllum líkindum iðrast þess alla ævi hvað símtalið var stutt,“ segir Harry í myndinni.

Vilhjálmur var fimmtán ára og Harry tólf þegar Díana lét lífið á síðasta degi ágústmánaðar 1997. Þeir voru þá staddir í Balmoral, höll drottningar í Skotlandi.

Vilhjálmur minnist þess að hafa sagt móður sinni frá því hvað þeir væru að skemmta sér vel. „Harry og ég vildum flýta okkur að segja „bless“, þú veist... „Heyrumst síðar“. Ef ég hefði vitað hvað myndi gerast hegði ég að sjálfsögðu ekki verið svona áhugalaus.“

Í ár verður þess minnst á ýmsa vegu að tuttugu ár séu liðin frá láti Díönu og hafa prinsarnir safnað fé til að hægt sé að reisa styttu af móður sinni. Verður henni komið fyrir í almenningsgarði við Kensington-höll í London.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×