Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Noregs, var óánægður með skort á grimmd hjá leikmönnum norska landsliðsins og fór sérstaka leið til þess að kveikja í þeim fyrir leikinn gegn Tékkum á laugardag.
Hann sýndi þeim myndband með íslenska landsliðinu. Hvernig hlutirnir eru gerðir þar, hvernig leikmenn íslenska landsliðsins leggja sig fram.
„Það er ekki mikill munur á því hvernig hann vill að við spilum og hvernig Ísland spilar. Að horfa á myndband með íslenska landsliðinu hjálpaði til,“ sagði Mats Møller Dæhli eftir leikinn.
Hann fór 1-1 en Alexander Söderlund, fyrrum leikmaður FH, jafnaði fyrir Norðmenn í leiknum.
Allt annað var að sjá til norska liðsins í leiknum sem gaf allt í þetta og barðist fyrir stiginu.
Lars kveikti í norska landsliðinu með myndbandi af íslenska liðinu
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
