Erlent

Örlög finnsku ríkisstjórnarinnar kunna að ráðast í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Jussi Halla-aho (til hægri) var kjörinn nýr formaður Sannra Finna á landsþingi um helgina. Hann tekur við embættinu af utanríkisráðherranum Timo Soini (til vinstri).
Jussi Halla-aho (til hægri) var kjörinn nýr formaður Sannra Finna á landsþingi um helgina. Hann tekur við embættinu af utanríkisráðherranum Timo Soini (til vinstri). Vísir/AFP
Örlög ríkisstjórnar Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, kunna að ráðast í dag, en leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja sátu á neyðarfundi á heimili forsætisráðherrans í Helsinki fyrir hádegi.

Ástæða þess að boðað var til fundarins er að um helgina var Evrópuþingmaðurinn Jussi Halla-aho kjörinn nýr formaður Sannra Finna, eins stjórnarflokksins. Halla-aho tekur við embættinu af Timo Soini, en Halla-aho er þekktur fyrir harða andstöðu sína í garð innflytjenda.

Miðflokkur Sipilä, Þjóðarbandalagið og Sannir Finnar hafa starfað saman ríkisstjórn frá árinu 2015. Þingmenn Miðflokksins og Þjóðarflokksins hafa verið boðaðir til þingflokksfundar í kvöld, en Halla-aho yfirgaf fundinn í morgun án þess að ræða við fjölmiðla.

Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna hafa hvatt til þess að boðað verði til nýrra kosninga.

Halla-aho var árið 2012 dæmdur fyrir hatursummæli vegna bloggfærslu sem hann skrifaði árið 2008. Þar sagði hann að íslam væru trúarbrögð sem leggi blessun sína yfir barnaníð, auk þess að þjófnaður kunni að vera erfðafræðilegt sérkenni Sómala.

Fjármálaráðherrann og formaður Þjóðarbandalagsins, Petteri Orpo, segir að ljóst sé að með kjöri Halla-aho séu Sannir Finnar ekki sami flokkur og þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×