Erlent

Efasemdamaður um loftslagsbreytingar tilnefndur í forstjórastól NASA

Bjarki Ármannsson skrifar
Ríkisstjórn Donald Trump hefur ekki sýnt málefnum geimferðastofnunarinnar mikla athygli til þessa.
Ríkisstjórn Donald Trump hefur ekki sýnt málefnum geimferðastofnunarinnar mikla athygli til þessa. Vísir/EPA
Þingmaðurinn Jim Bridenstine verður næsti forstjóri NASA, bandarísku geimferðastofnunarinnar. Frá þessu var greint á föstudag. Rúmir sjö mánuðir eru liðnir frá því að síðasti forstjóri NASA, Charles Bolden, lét af störfum og hefur stofnunin aldrei verið jafnlengi án forstjóra.

Bridenstine er þingmaður Oklahoma-ríkis, þar sem ekki fer alla jafna mikið fyrir starfsemi NASA. Hann lærði hagfræði og sálfræði í háskóla, ekki raungreinar, og lét ummæli falla á Bandaríkjaþingi árið 2013 sem bentu til þess að hann trúi ekki að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Skemmst er að minnast þess að annar efasemdamaður um loftslagsbreytingar, Scott Pruitt, var í febrúar gerður að forseta Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna.

Ráðning hans hefur sætt gagnrýni af þessum ástæðum. Þá efast aðrir um ágæti þess að ráða þingmann sem forstjóra NASA en Bridenstine verður fyrsti kjörni fulltrúinn í sögu stofnunarinnar sem gegnir embættinu.

Bridenstine, sem er Repúblikani og stuðningsmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur þó óneitanlega áhuga á himinhvolfunum og ferðum þangað. Hann var forstjóri flug- og geimferðasafns í Oklahoma í tvö ár og hefur ítrekað tjáð sig um málefni NASA opinberlega.

Fyrst og fremst hefur Bridenstine mælt fyrir því að nýta betur starfskrafta einkarekinna fyrirtækja á borð við SpaceX og Blue Origin við geimferðir og rannsóknir. Samþykki öldungadeild þingsins skipun hans í embætti er þó ekki víst að miklar áherslubreytingar verði, þar sem ríkisstjórn Trump hefur til þessa ekki sýnt málaflokknum mikla athygli.


Tengdar fréttir

Þingmaður spurði NASA út í siðmenningu á Mars fyrir þúsundum ára

Aðstæður á Mars voru líklega mun skaplegri fyrir milljörðum ára og telja vísindamenn mögulegt að frumstætt líf gæti hafa kviknað þá. Bandarískur þingmaður vildi hins vegar vita hvort siðmenning geimvera hafi verið á rauðu reikistjörnunni fyrir þúsundum ára þegar fulltrúar NASA komu fyrir þingnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×