Enski boltinn

Sadio Mane um vítadóminn afdrifaríka: Mér var hrint

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane gaf ekki leynt vonbrigðum sínum.
Sadio Mane gaf ekki leynt vonbrigðum sínum. Vísir/Getty
Sadio Mane átti mestan þátt í því sjálfur að markið hans dugði Liverpool ekki til sigurs í 2-2 jafntefli á móti Sunderland á Leikvangi Ljóssins.

Tólf mínútum eftir að hann kom Liverpool yfir í 2-1 fékk hann dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að verja skot Seb Larsson úr aukaspyrnu með hendi. Jermain Defoe tók vítið og tryggði Sunderland stig.

„Ef ég segi alveg eins og er þá fór boltinn í höndina á mér. Málið var bara að mér var hrint, ég missti þess vegna jafnvægið og boltinn fór í höndina,“ sagði Sadio Mane í viðtali við BBC.

Þetta var annað vítið sem Liverpool fékk á sig í leiknum en Sunderland jafnaði í 1-1 úr því fyrra sem var dæmt fyrir brot Ragnars Klavan í fyrri hálfleiknum.

Sadio Mane var með afsökunina á reiðum höndum en hann gat samt ekki komist hjá því að segja að dómarinn hafi gert rétt.

„Ég verð samt að viðurkenna að þetta var víti,“ sagði Sadio Mane en bætti við: „Við verðum bara að horfa fram á við og halda áfram. Við verðum bara að sætta okkur við þetta stig,“ sagði Sadio Mane.

Liverpool átti möguleika á því að minnka forskot Chelsea í þrjú stig en Chelsea-liðið getur nú náð átta stiga forystu á miðvikudagskvöldið.

Boltinn fer hér í hendi Sadio Mane.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×