Innlent

Katrínu Jakobsdóttur lýst sem „and-Trump“

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að Katrín sé sögð andstæðan við Donald Trump Bandaríkjaforseta er bent á að þau séu bæði lítt hrifin af NATO.
Þrátt fyrir að Katrín sé sögð andstæðan við Donald Trump Bandaríkjaforseta er bent á að þau séu bæði lítt hrifin af NATO. vísir/ernir
Stefnan um kolefnishlutleysi Íslands, jafnrétti kynjanna og tuttugu ára gamalt tónlistarmynd með Bang Gang er á meðal umræðuefna í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem birtist meðal annars á vefsíðu bandaríska dagblaðsins USA Today. Þar er henni lýst sem „and-Trump“, andstæðunni við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Í viðtalinu sem alþjóðlega fréttasíðan Public Radio International tók upphaflega en birtist meðal annars á vefsíðu USA Today er Katrín sögð sá stjórnmálamaður sem Íslendingar treysta best.

Hún sé að meðal yngstu þjóðarleiðtoga heims, femínisti og umhverfisverndarsinni sem er með gráðu í bókmenntum og sérstakan áhuga á glæpasögum. Þá er rifjað upp að hún lék í tónlistarmyndbandi með hljómsveitinni Bang Gang á sínum tíma.

„Hafðir þú gaman af myndbandinu? Þetta var frábær hljómsveit. Tveir vinir mínir báðu mig um að leika þetta hlutverk og það var aðallega að hlaupa um,“ segir forsætisráðherra spurður út í leiksigurinn í myndbandinu.

Enn ljón í vegi kynjajafnréttis á Íslandi

Þá var Katrín spurð í í stjórnmálin á Íslandi og röð hneykslismála. Lýsir hún því að þrátt fyrir efnahagslegan bata í kjölfar hrunsins hafi reynst erfiðara að endurnýja traust á stjórnmálamönnum.

„Ég held að stemmingin í íslenskum stjórnmálum sé þannig að fólk vonar að allir flokkar á þingi geti náð betri stjórnmálamenningu,“ segir hún.

Þrátt fyrir að Katrín telji að Ísland standi sig vel í jafnrétti kynjanna á alþjóðlegan mælikvarða segir hún enn margar áskoranir til staðar.

„Til dæmis eru færri konur á þingi eftir kosningarnar nú en eftir þær sem voru á undan og við höfum enn ekki náð því sem við gætum kallað jöfn laun kynjanna sem er eitthvað sem við höfum unnið að í mörg ár,“ segir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×