Helena Sverrisdóttir mun ganga tímabundið til liðs við Good Angels í Kosice í Slóvakíu á næstunni en snúa aftur í Hauka og klára tímabilið hér á landi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Helena varð slóvakískur meistari með liðinu árin 2012 og 2013. Liðið er í eldlínunni í þremur keppnum sem stendur, þeirra á meðal Euroleague sem er sterkasta deild Evrópu. Var því leitað til Helenu til að létta undir.
Hún mun hins vegar snúa aftur til Haukanna áður en lokað verður fyrir félagaskipti þann 1. febrúar og klára tímabilið hér á landi.
Helena var valin besti leikmaður fyrri hluta tímabilsins í Domino's-deild kvenna á föstudaginn en Haukar eru í öðru sæti deildarinnar sem stendur.
