Viðskipti innlent

Enn óljóst hvernig kísilverið mun borga

Sæunn Gísladóttir skrifar
United Silicon þarf að greiða ÍAV fyrir lok næstu viku.
United Silicon þarf að greiða ÍAV fyrir lok næstu viku. VÍSIR/VILHELM
Fimm dögum eftir að gerðardómur féll er enn ekki ljóst hvernig United Silicon mun greiða verktakafyrirtækinu ÍAV rúman milljarð króna vegna ógreiddra reikninga kísilversins í Helguvík. Samkvæmt gerðardómi þarf greiðsla að berast í lok næstu viku.

„Við getum ekki svarað þessu, það er verið að vinna í málinu og það er engin niðurstaða komin í þetta,“ segir Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, spurður um hvernig félagið hyggst greiða fjárhæðina.

„Það er enn verið að fara yfir dóminn og skoða alls kyns forsendur og svo eru lögmenn félagsins að vinna í málinu,“ segir hann.

Hluthafaskrá United Silicon hefur ekki verið uppfærð og ekki fengust upplýsingar um hverjir væru núverandi eigendur þegar óskað var eftir því.

Ekki hefur verið óskað eftir aðstoð frá Festu lífeyrissjóði, hluthafa í kísilverinu, til að greiða fjárhæðina. „Það hefur ekki verið óskað eftir því við okkur. Slíkar fyrirspurnir fara fyrir stjórn hjá lífeyrissjóðnum og fjárfestingaákvarðanir eru teknar út frá fyrirliggjandi upplýsingum og stjórnarákvörðun,“ segir Baldur Snorrason, sjóðsstjóri hjá Festu lífeyrissjóði.

Fyrirspurn var send á Frjálsa lífeyrissjóðinn sem á hlut í kísilverinu en ekki náðist samband við framkvæmdastjórann vegna málsins.

Ekki fengust upplýsingar frá Arion banka sem á hlut í United Silicon um hvort bankinn myndi veita fyrirtækinu lán eða annars konar fjárhagsaðstoð. Arion banki er jafnframt stærsti lánveitandi verkefnisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×