Innlent

Ekki bótaskylt að mismuna lækni á grundvelli kynferðis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Deilt hefur verið um ráðninguna frá því árið 2012.
Deilt hefur verið um ráðninguna frá því árið 2012. vísir/getty
Íslenska ríkið var í gær sýknað af miskabótakröfu æðaskurðlæknis sem taldi að honum hefði verið synjað um starf yfirlæknis á Landspítalanum sökum kynferðis síns.

Starfið var auglýst árið 2012 og sóttu þrír um stöðu yfirlæknis æðaskurðlækninga, tveir karlar og ein kona. Samkvæmt mati stöðunefndar Landlæknis voru allir umsækjendur hæfir. Að endingu var konan, 41 árs gömul með fimm ára sérfræðitíma í æðaskurðlækningum, ráðin. Hún var á þeim tíma starfandi yfirlæknir deildarinnar.

Sú niðurstaða var kærð til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að Landspítalinn hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Sú niðurstaða var síðar staðfest í héraðsdómi og Hæstarétti.

Í mati stöðunefndarinnar um stefnanda málsins sagði að maðurinn væri 51 árs gamall sérfræðingur sem hefði náð hámarkssérfræðitíma sem nefndin mæti. Þá hefði hann verið nokkuð virkur við vísindastörf, hefði áður verið settur yfirlæknir deildarinnar í tvö ár og hefði nokkra stjórnunarreynslu þess utan.

Héraðsdómur féllst á að manninum hefði verið synjað um starfið á grundvelli kynferðis. Hins vegar var ekki fallist á að sú ákvörðun hefði svert starfsferil hans, valdið honum tjóni eða miska. Þeirri málsástæðu að einn af þeim sem sá um starfsviðtölin hefði verið meðmælandi kvenlæknisins, var ekki hleypt að. Hún kom of seint fram fyrir dómi.


Tengdar fréttir

Landspítalinn braut tvisvar gegn sama lækninum

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Landspítalinn hafi brotið lög í ráðningarferli árið 2012 og sniðgengið Stefán Einar Matthíasson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×