Erlent

T.J. Miller sakaður um kynferðisbrot

Birgir Olgeirsson skrifar
T.J. Miller.
T.J. Miller. Vísir/Getty

Bandaríski gamanleikarinn T.J. Miller hefur verið sakaður um að brjóta kynferðislega gegn konu þegar hann stundaði nám við George Washington-háskólann í Washington snemma á fyrsta áratug þessarar aldar.

Fjölmiðillinn The Daily Beast ræðir við konuna sem kemur ekki fram undir nafni. Hún er kölluð Sarah í viðtalinu en hún lýsir tveimur brotum Miller. Í grein Daily Beast um málið kemur fram að blaðamenn fjölmiðilsins hafi fengið staðfestingar á frásögn konunnar frá þeim sem þekkja til málsins.



Konan segir Miller, sem er þekktastur fyrir að hafa leikið í gamanþáttunum Silicon Valley, hafa tekið þéttingsfast um háls hennar og þrengt þannig að öndunarvegi hennar án hennar samþykkis. Þá segir hún hann einnig hafa stungið bjórflösku upp í endaþarm hennar án hennar samþykkis.



Þeir sem bjuggu með konunni á þessum tíma rifjuðu upp að þeir hefðu heyrt þegar hún náði ekki andanum og að þeir hefðu haft áhyggjur af marblettum sem þeir sáu á henni daginn eftir.



Fjölmiðlar ytra segja orðróm um þetta mál hafa fylgt Miller lengi en konan leitaði til lögreglu á háskólasvæði George Washington-háskólans því hún vildi ekki fara með málið fyrir lögregluyfirvöld í borginni.



Var mál hennar því tekið fyrir af skólayfirvöldum sem tjáðu henni nokkrum vikum síðar að mál hennar hefði verið leyst, en henni var ekki sagt hvernig var tekið á því. Miller útskrifaðist frá háskólanum en fjölmiðlar ytra segja ekki ljóst hvort hann hafi verið neyddur til að gera það fyrr vegna málsins.



Miller sendir frá sér yfirlýsingu ásamt eiginkonu sinni Kate, sem var bekkjarfélagi hans í háskóla, vegna málsins þar sem þau neita þessum ásökunum.



„Við hittum þessa konu fyrir meira en áratug þegar við stunduðum nám saman í háskóla. Hún reyndi að stía okkur í sundur á þeim tíma og undirbjó það í heilt ár áður en hún lagði fram mótsagnakenndar ásakanir. Hún reyndi að gera okkur bæði tortryggileg og fá okkur upp á móti hvort öðru,“ segir í yfirlýsingu hjónanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×