Viðskipti innlent

Eiga nú 95 prósent hlut í Domino's á Íslandi

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Bretar eiga nú 95,3 prósent hlut í Domino's á Íslandi.
Bretar eiga nú 95,3 prósent hlut í Domino's á Íslandi. Vísir/Eyþór
Domino's í Bretlandi (Domino's Pizza Group), sem er stærsta pizzukeðja Bretlands, hefur keypt 44,3 prósent hlut íslenskra fjárfesta í rekstri Domino's á Íslandi og á nú 95,3 prósent í fyrirtækinu. Breska fyrirtækið, sem skráð er í bresku kauphöllina, sendi frá sér tilkynningu þess efnis nú í morgun.

Segir í tilkynningunni að viðskiptin muni ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og að reksturinn verði áfram í höndum núverandi stjórnenda. Domino's Pizza Group keypti upphaflega 51 prósent í Domino's á Íslandi haustið 2016 og fylgdi með í kaupunum réttur til að eignast fyrirtækið í heild sinni eftir annað hvort þrjú eða sex ár. Kaupin nú eru því nokkuð á undan áætlun og segir David Wild, forstjóri Domino's Pizza Group, í tilkynningu til bresku kauphallarinnar ástæðuna vera góðan árangur íslenska fyrirtækisins og tækifæri sem til staðar séu á íslenska markaðnum.

Sjá einnig: Engar áherslubreytingar fylgja nýjum eigendum Domino's

Tveir lykilstjórnendur á Íslandi, þeir Birgir Örn Birgisson og Steinar Sigurðsson, halda eftir hluta af sínum eignarhlut og eiga þeir saman um 4,7 prósent í fyrirtækinu eftir viðskiptin.

Birgir Örn, framkvæmdastjóri Domino's á Íslandi, segir þetta góðar fréttir.

„[...]Það að Bretarnir skuli hafa flýtt því að nýta sér kaupréttinn er mikil viðurkenning á því starfi sem starfsfólk Domino's á Íslandi hefur unnið.“

Fyrsti Domino's pizzastaðurinn á Íslandi var opnaður árið 1993. Í dag rekur fyrirtækið 23 slíka staði á Íslandi. Um 800 starfsmenn starfa hjá Domino's hér á landi, ríflega helmingur þeirra í hlutastarfi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×