Innlent

Heimilisofbeldi, kannabisræktun og eignaspjöll á borð lögreglunnar í nótt

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í Mosfellsbæ á sjötta tímanum í gær. Um var að ræða ræktun í heimahúsi og voru plöntur og tæki gerð upptæk.

Klukkan 20 í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af tveimur ungum drengjum sem voru að brjóta rúðu í Langholtsskóla. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynningu til barnaverndarnefndar. Þá hafði lögreglan afskipti af fimm ungum mönnum við Holtaveg á öðrum tímanum í nótt vegna vörslu fíkniefna.

Klukkan tvö í nótt barst lögreglunni tilkynning um heimilisofbeldi í Grafarvogi og var kona vistuð fangageymslu við rannsókn málsins.

Þá voru tveir menn handteknir rétt fyrir klukkan eitt í nótt í Mosfellsbæ grunaðir um innbrot og þjófnað. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

Lögreglunni barst tilkynning klukkan fjögur í nótt um eignaspjöll í Grafarvogi. Maður hafði brotið rúðu í bifreið og er hann einnig grunaður um brot á vopnalögum. Bifreiðin var ótryggð og var skráningarmerki hennar klippt af.

Þá stöðvaði lögreglan fimm ökumenn í gærkvöldi og í nótt sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×