Erlent

Fer í mál við Facebook út af sjálfu sem hann tók með Angelu Merkel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Modamani tók sjálfu með Merkel þegar hún heimsótti flóttamannaskýli sem hann bjó í í Berlín.
Modamani tók sjálfu með Merkel þegar hún heimsótti flóttamannaskýli sem hann bjó í í Berlín. vísir/getty
Sýrlenski flóttamaðurinn Anas Modamani hefur höfðað mál gegn Facebook eftir að sjálfa sem hann tók af sér með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, var notuð til að dreifa fölskum fréttum á samfélagsmiðlinum.

Í umfjöllun á vef BBC kemur fram að Modamani hafi sett myndina á Facebook í ágúst 2015 en hún var síðar notuð til að tengja hann ranglega við hryðjuverkaárásir.

Facebook eyddi sumum póstunum en lögfræðingar Modamani halda því fram að myndin hafi samt birst víða og að Facebook hefði getað gert meira til þess að koma í veg fyrir að fólk myndi deila myndinni á þennan hátt. Myndin hefur til að mynda verið notuð í póstum um hryðjuverkaárásina í Brussel og árásina sem gerð var á jólamarkað í Berlín.

Lögfræðingur Facebook hefur hins vegar svarað því til að svo koma megi í veg fyrir hvers kyns misnotkun efnis á samfélagsmiðlinum þyrfti að finna upp einhvers konar töfravél sem er einfaldlega ekki til. Þá sagði hann jafnframt að Facebook hefði eytt öllum póstum sem Modamani hefði tilkynnt og að það væru í raun einstaklingarnir sem hefðu deilt myndinni sem væru ábyrgir en ekki samfélagsmiðillinn.

Modamani flúði frá Sýrlandi árið 2015 og bjó í flóttamannaskýli í Berlín þegar Merkel kom þangað í heimsókn. Hann setti myndina á Facebook-síðu sína en hún varð fljótt nokkurs konar táknmynd fyrir innflytjendastefnu Merkel. Búist er við því að dómur í máli Modamani gegn Facebook, sem höfðað er fyrir dómstólum í Þýskalandi, verði kveðinn upp í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×