Erlent

Terho vill leiða Sanna Finna

Atli Ísleifsson skrifar
Sampo Terho er þingflokksformaður Sannra Finna.
Sampo Terho er þingflokksformaður Sannra Finna. facebook
Finnski þingmaðurinn Sampo Terho vill taka við formennsku í Sönnum Finnum. Utanríkisráðherrann Timo Soini greindi frá því um helgina að hann hugðist láta af formennsku í flokknum í sumar.

Terho tilkynnti um framboð sitt í morgun. Varnarmálaráðherrann Jussi Niinistö, sem einnig hafði verið orðaður við framboð, sagði í morgun að hann myndi ekki bjóða sig fram og lýsti jafnframt yfir stuðningi við Terho.

Hinn 39 ára Sampo Terho er þingflokksformaður Sannra Finna, og átti sæti á Evrópuþinginu á árunum 2011 til 2015. Terho sagði að gildi Sannra Finna yrðu áfram þau sömu verði hann kjörinn, en að þörf væri á endurnýjaðri stefnu sem yrði kynnt eftir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Sannir Finnar hafa barist gegn straumi innflytjenda til Finnlands og eiga nú sæti í ríkisstjórn ásamt Miðflokknum og Þjóðarbandalaginu.

Landsfundur Sannra Finna fer fram í Jyväskylä í byrjun júní þar sem Soini mun stíga til hliðar eftir að hafa gegnt leiðtogaembættinu í flokknum frá 1997.

Soini kveðst þó vilja eiga áfram sæti í ríkisstjórn út kjörtímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×