Innlent

Ákveða rannsókn á Landsréttarmáli í næstu viku

Snærós Sindradóttir skrifar
Jón Steindór Valdimarsson varaformaður og Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Jón Steindór Valdimarsson varaformaður og Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Vísir/Anton Brink
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kemur aftur saman í næstu viku til að ákveða hvort ráðast eigi í rannsókn á skipan dómara við Landsrétt. Þetta var niður­staða fundar nefndarinnar í gær. Fulltrúar Pírata í nefndinni, Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir, fara fram á að málið verði rannsakað en þrjá nefndarmenn þarf til að knýja fram rannsókn.

„Niðurstaða fundarins var sú að taka enga ákvörðun um þá tillögu en við ætlum að skoða þetta og kalla til sérfræðinga okkar,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður nefndarinnar. Hann gegnir formennsku í málinu vegna þess að tengsl Brynjars Níelssonar, formanns nefndarinnar, koma í veg fyrir að hann komi að málinu.

Ástráður Haraldsson lögmaður hefur stefnt ríkinu vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra að skipa hann ekki dómara þrátt fyrir að hafa verið metinn í hópi þeirra hæfustu.

„Eftir því sem ég best veit þá er búið að stefna málinu inn og óska eftir svokallaðri flýtimeðferð þannig að við vorum að velta fyrir okkur samspili hugsanlegra aðgerða eða vinnu nefndarinnar við dómsmál sem er í gangi. Við ætlum að hittast aftur í næstu viku og fara betur yfir það hver staða nefndarinnar er og samspil við þetta dómsmál sem er lagt af stað. Aðrar ákvarðanir voru ekki teknar,“ segir Jón Steindór.




Tengdar fréttir

Segir ráðherra hafa svindlað á kerfinu og ætlar í mál

Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður var metinn einn af fimmtán hæfustu umsækjendunum um dómarastöðu í Landsrétti en var færður af listanum af dómsmálaráðherra. Hann segir reglur hafa verið brotnar og ætlar í mál við ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×