Fótbolti

Fauk í Lars Lagerbäck á blaðamannafundi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Vísir/Getty
Lars Lagerbäck, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins og núverandi landsliðsþjálfari Norðmanna, reiddist norskum blaðamanni í kvöld á blaðamannafundi norska fótboltalandsliðsins en framundan eru síðustu leikir norska landsliðsins í undankeppni HM 2018.

Norðmenn eiga ekki lengur möguleika á því að komast á HM í Rússlandi en síðustu leikir liðsins eru á móti San Marinó og Norður-Írlandi.

Fyrri leikurinn er á móti San Marinó, liðinu sem er stigalaust á botni riðilsins með markatöluna 2-38.

Norska dagblaðið sagði frá uppákomu í kvöld. Einn norsku blaðamannanna ætlaði að vera fyndinn og spurði Lars Lagerbäck þessarar spurningar:

„Nú hefur þú verið þjálfari landsliða næstum því frá síðustu Ísöld. Er nokkur hætta á því að tapa þessum leik? Getum við talað hreint út og sagt að þetta sé í raun bara frí fyrir leikmenn?,“ spurði blaðamaðurinn.

Það fauk í Lars Lagerbäck sem snéri sér við í stólnum og svaraði grimmur:

„Heldur þú virkilega að ég muni svara þessari spurningu? Heldur þú að ég komi hingað og líti á þetta sem einhverskonar frí? Ertu að spyrja í alvöru?,“ spurði Lagerbäck.

Blaðamaðurinn dró í land og sagðist hafa meira vera að spyrja í gamni en alvöru.

Lagerbäck varð fljótt rólegri en talaði um að það væri alltaf hætta á því að tapa leikjum. „Ég yrði samt mjög hissa ef við vinnum ekki þennan leik,“ sagði Lars Lagerbäck.

Noregur vann fyrri leik liðanna 4-1 á heimavelli en þessi leikur fer fram í San Marinó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×