Erlent

Sókn írakskra öryggissveita miðar vel áfram í Mosúl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Öryggissveitir Írak eru studdar af Bandaríkjunum og öðrum bandamönnum.
Öryggissveitir Írak eru studdar af Bandaríkjunum og öðrum bandamönnum. Vísir/AFP
Bardagar hafa staðið yfir í vesturhluta Mosúlborgar í Írak í nærri þrjár vikur og miðar sókn írakska öryggissveita, með stuðningi Bandaríkjamanna, vel áfram gegn vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Ríkis Íslams. Guardian greinir frá.

Rúmlega 45 þúsund almennra borgara flúðu heimili sín í borginni í síðustu viku og voru bardagar um helgina meðal þeirra hörðustu frá upphafi átakanna. Götur í þessum hluta borgarinnar eru gífurlega þröngar og því erfitt fyrir hermenn öryggissveitanna að nýtast við brynvarða bíla í baráttunni við hryðjuverkamennina og gengur sóknin því hægara en ella.

Samkvæmt talsmönnum Íraka miðar sveitunum þó vel áfram og telja þeir sig nú vera nálægt því að ná undir sitt vald helstu stjórnarbyggingum sem má finna í hverfinu og nýttar hafa verið sem bækistöðvar hryðjvuerkasamtakanna. Talið er að leiðtogar samtakanna séu löngu flúnir frá borginni en eftir standa rúmlega 5000 bardagamenn, sem taldir eru reiðubúnir til þess að berjast til síðasta blóðdropa.

Alþjóðanefnd Rauða krossins hefur tilkynnt að efnavopnum hafi verið beitt í átökunum og er talið að hryðjuverkasamtökin hafi beitt þeim en samtökin hafa áður beitt slíkum vopnum, þar á meðal klóri og öðrum efnum gegn Kúrdum í norðurhluta landsins. Enn á eftir að staðfesta það hvaða efni voru notuð en leifar af slíkum efnum fundust á tólf almennum borgurum.

Samkvæmt upplýsingum frá íröksku öryggissveitunum er talið að þrátt fyrir að sóknin hafi gengið vel á undanförnum dögum, sé enn langt í það að átökum í borginni ljúki og telja írakskir hershöfðingjar að orrustan muni geysa áfram að minnsta kosti næstu tvo mánuði, einfaldlega vegna baráttugleði vígamannanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×