Erlent

Kyn­ferð­is­af­brot­af­ar­ald­ur skek­ur bresk­a há­skól­a

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fjöldi nemenda sem tilkynnt hafa um kynferðislega áreitni starfsfólks í breskum háskólum hleypur á hundruðum.
Fjöldi nemenda sem tilkynnt hafa um kynferðislega áreitni starfsfólks í breskum háskólum hleypur á hundruðum. Vísir/Getty
Kynferðisafbrotafaraldur skekur nú breskt háskólasamfélag en gífurlegur fjöldi stúdenta þar í landi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu starfsfólks þess skóla sem þeir sækja.

Samkvæmt fyrirspurn Guardian til 120 breskra háskóla höfðu komið upp að minnsta kosti 169 mál þar sem nemendur sökuðu starfsfólk um að hafa kynferðislega áreitt sig á tímabilinu 2011-2012 til 2016-2017. Þá höfðu að minnsta kosti 127 starfsmenn viðkomandi skóla sakað vinnufélaga sína um slíkt áreiti á sama tímabili. 

Þrátt fyrir þessar tölur er talið að vandamálið sé enn djúpstæðara en svo en samkvæmt upplýsingum Guardian hefur fjöldi fórnarlamba aldrei tilkynnt um að brotið hafi verið á sér, eða dregið ásakanir sínar til baka. Margir hafi óttast áhrif þessa mála á feril sinn.

Ann Olivarius, lögfræðingur sem aðstoðað hefur fórnarlömb kynferðisofbeldis í Bretlandi, segir að tölurnar sýni einungis hluta vandamálsins.

„Þessar tölur eru sláandi en því miður, af fenginni reynslu, að þá er þetta bara toppurinn á ísjakanum. Kynferðislegt áreiti í garð nemenda af hálfu starfsfólk er orðið að faraldri í breskum háskólum. Flestir háskólar hafa enga verkferla til þess að taka fyrir það þegar starfsfólk beitir nemendur þrýstingi til þess að eiga í kynferðislegu sambandi við sig.“

„Ungar konur eru oft skelfingu lostnar yfir því að hugsa um afleiðingarnar af því ef þær segja frá á opinberum vettvangi og kvarta þar með yfir starfsfólki. Vegna þess að oft þegar þær gera það, hafa háskólarnir mestar áhyggjur af því að vernda orðspor sitt og gera þar með lítið úr hlutunum til þess að tryggja að ekki fari hátt um þessi brot.“

Aðrir lögfræðingar sem einnig hafa sérhæft sig í kynferðisafbrotamálum hafa bent á að þeir háskólar sem tilkynni um flest slík brot, þurfi þó ekki að vera þeir skólar þar sem stærstu vandamálin er að finna. Þvert á móti, geta fleiri tilkynningar um brot bent til þess að verklag í þeim skólum sé betra en í öðrum skólum, þar sem ekki heyrist jafn mikið um kynferðisafbrot.

Lítill hluti þeirra brota sem tilkynnt hafi verið af nemendum, hafa verið rannsökuð af lögreglunni en meirihluti þeirra tilvika er leystur innanhúss í skólunum. 

Olivarius hefur kallað eftir því að stjórnvöld í Bretlandi innleiði opinbert kerfi og verkferla til þess að takast á við slík brot. Sambönd á milli stúdenta í grunnnámi og kennara eigi að vera ólögleg.

„Það verður að banna starfsfólki skólanna að eiga í kynferðislegu sambandi við stúdenta í grunnnámi auk þess sem kynferðislegt samband milli starfsfólk í sömu deild og mastersnema ætti einnig að vera bannað. Brot á þeim reglum ætti að fela í sér tafarlausan brottrekstur og tilkynningu til breskra yfirvalda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×