Mennirnir voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglu- og tollyfirvalda fyrir tíu dögum, en rannsókn málsins teygir anga sína til bæði Póllands og Hollands og er unnin í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld, auk Europol og Eurojust.
Þeir voru leiddir fyrir dómara á fjórða tímanum. Þriðja manninum var sleppt á miðvikudaginn. Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu, segir manninn enn hafa réttarstöðu sakbornings í málinu.
Fimm Pólverjar voru handteknir hér á landi 12. desember. Í aðgerðum lögreglu var lagt hald á fasteignir, bíla og reiðufé að andvirði um 200 milljóna króna. Sömuleiðis fíkniefni en söluvirði þeirra er talið nema um 400 milljónum króna.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að rannsókn málsins miði vel.
Meðal þeirra sem voru handteknir eru eigendur Euro Market, pólskra smávöruverslana hér á landi.