Fótbolti

Forráðamenn Twente ræddu við kollega sína hjá Tromsö um Aron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur skorað tvö mörk í fimm A-landsleikjum.
Aron hefur skorað tvö mörk í fimm A-landsleikjum. vísir/getty
Hollenska úrvalsdeildarliðið Twente hefur mikinn áhuga á að fá Aron Sigurðarson, leikmann Tromsö og íslenska landsliðsins, í sínar raðir.

Forráðamenn Twente sáu leik Tromsö og Molde í norsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og ræddu við forráðamenn norska liðsins og umboðsmann Arons að honum loknum. Frá þessu er greint á vefsíðunni iTromsö.

Frammistaða Arons á tímabilinu hefur vakið athygli liða í Evrópu en eins og staðan er núna virðist áhugi Twente vera mestur.

Samningur Arons við Tromsö rennur út á næsta ári og félagið ætti því að geta fengið væna summu fyrir hann.

Svein-Morten Johansen, íþróttastjóri Tromsö, segist í samtali við iTrömsu allt eins búast við tilboði frá Twente í Aron í sumar. Tromsö verði þó að hafa tíma til að finna nýjan leikmann í stað hans.

Aron hefur skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar í norsku deildinni á tímabilinu. Hann er í 8. sæti í einkunnagjöf VG með 5,62 í meðaleinkunn.

Aron, sem er 23 ára, er á sínu öðru tímabili hjá Tromsö en hann gekk í raðir liðsins frá Fjölni í febrúar 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×