Flugvél Grænlandsflugs er að koma inn til lendingar á flugvellinum í Nuuk. Þetta er vél af gerðinni Bombardier Q 200, sérhæfð flugvél til lendingar á stuttum brautum, enda er brautin í Nuuk aðeins 950 metra löng. Svona vél tekur aðeins 37 farþega en grænlensk stjórnvöld vilja að þotur geti líka lent.

Eina millilandaflugið til Nuuk árið um kring er frá Reykjavík á vegum Flugfélags Íslands og borgarstjórinn, Asii Chemnitz Narup, sér fram á að lenging brautarinnar verði eitt þeirra verkefna sem styrki böndin við Ísland.

„Við erum í nánu samstarfi við ferðaþjónustuna og atvinnulífið á Íslandi. Þetta styrkir enn böndin á milli þessara tveggja þjóða og það er mjög ánægjulegt,” segir borgarstjóri Nuuk.
Guðmundur Þorsteinsson, eða Gujo, sem flutti til Grænlands fyrir 46 árum, segir stóru tækifæri landsins liggja í ferðaþjónustunni. Grænland sé augnakonfekt af hæstu gráðu.

„Það vantar aðgengi. Það vantar flug,” segir Gujo, sem starfar sem verkefnisstjóri Kofoeds-skóla í Nuuk.
Fjallað var um flugvallaáform Grænlendinga á Stöð 2 í haust en þá sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, að lenging brautanna gæti lækkað fargjöldin milli Íslands og Grænlands. Stærri flugbrautir byðu upp á stærri flugvélar og möguleika á lægri sætiskostnaði.