Lífið

Vilja frelsið aftur

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Elín Inga Bragadóttir segir ótta kvenna valda andlegu álagi.
Elín Inga Bragadóttir segir ótta kvenna valda andlegu álagi.
Ungar konur sem finna fyrir öryggisleysi einar á ferð segja mikilvægt að varpa ekki ábyrgð á kynbundnu ofbeldi á þær. Þær vilja vera frjálsar, samfélagið eigi að taka ábyrgð.

Elín Inga Bragadóttir: Frelsisskerðing

„Ég upplifi ótta. En ég er að reyna að hætta því. Af því að mér finnst óeðlilegt að ég geti ekki bara gengið um borgina sem ég bý í og liðið ágætlega hvort sem það er dagur eða nótt eða hvaða götu ég er að ganga. Það er svo mikil frelsisskerðing að vera með þennan hnút í maganum,“ segir Elín Inga Bragadóttir.

Hún segist halda að óttinn sé innrættur stúlkum úr barnæsku. „Maður er alinn upp við það að það sé hættulegt fyrir konur að vera einar á ferð á nóttunni. Að einhverju leyti er þetta rökrétt. En ef maður fer yfir tölfræði þá eru meiri líkur á því að þú verðir fyrir einhverju á eigin heimili eða í partíi. Óttinn er líka til kominn vegna þess að við erum alltaf að verða fyrir áreiti. Maður er að labba heim, einhver kallar á eftir þér. Öll þessi atvik safnast upp í einn stóran kvíðahnút. Ég reyni að hugga mig, róa. Og segi við sjálfa mig, ef þú lendir í einhverju þá er ekkert sem þú getur gert, það verður ekki skárra þó að þú sért að drepast úr kvíða.“

Hún segir óttann valda andlegu álagi. „Allar þessar ferðir sem maður er búinn að ganga heim kvíðinn. Ég sleppi því ekki að ganga ein, þetta er bara aukaálag. Við fáum líka öðruvísi skilaboð. Ég fór ein til Indlands til að ferðast. Strákar sem fara í slík ferðalög held ég að fái kveðjuna: Njóttu þín, góða skemmtun! Við fáum passaðu þig! Gættu þín! Þetta er viðkvæm umræða en ég held að við þurfum að hætta að segja stelpum að passa sig. Um leið og það er sagt, þá er komin einhver skömm sem á ekki að vera. Við þurfum að breyta umræðunni, hvernig við tölum um það. Ef einhver ætlar sér að skaða einhvern þá kemur þú ekki í veg fyrir það. Ég vil segja við stelpu sem er á leið að skemmta sér eða ein í ferðalag: Góða skemmtun! Og ég vil segja við alla: Gætum hvert annars.“

Hún segist skynja breytingar. „Ég hef lent í því að vera að ganga úr miðbænum og það eru strákar á eftir mér að þeir færa sig til að sýna mér nærgætni. Þeir taka eftir því að okkur líður illa, erum hræddar og taka tilllit til þess. Það eru bara örfáir sem vilja skaða og meiða en það er nóg til að skapa almennan ótta.“

Sigríður Inga Eysteinsdóttir
Vill meiri sýnileika lögreglu: Sigríður Inga Eysteinsdóttir

Sigríður Inga hefur upplifað ótta frá því á unglingsárum en hann varð alvarlegri og meira hamlandi eftir að hún lenti sjálf í árás þegar hún var sautján ára gömul.

„Það var ráðist á mig snemma morguns. Ég var á leiðinni í Tækniskólann í Reykjavík í síðasta prófið fyrir sumarfrí, oftast vorum við í hóp saman en þennan morgun var ég ein.

Eftir þetta þá er alveg sama hvað klukkan er. Ef ég er ein þá er ég hrædd og verð að tala við einhvern í símann. Ef ég hef engan að tala við þá er ég með lykla eða eitthvað sem ég mögulega gæti notað sem vopn. Svo passa ég mig á að hafa helst ekki veski eða tösku á mér til að minnka líkur á að vera rænd. Þegar ég sest upp í bíl, þá læsi ég strax hurðinni svo enginn komist inn. Ég hef ekkert lagast en reyni oft að tala mig til. Þessi hræðsla hefur það í för með sér að ég fer ekki út að skemmta mér nema ég sé með einhverjum allan tímann og alveg viss um að ég sé með far aftur heim. Ég treysti engum nema makanum og nánustu vinkonum,“ segir Sigríður, sem fer sárasjaldan út að skemmta sér í Reykjavík þar sem henni finnst aðstæður ekki góðar.

„Mér finnst að það þurfi að auka sýnileika lögreglunnar og myndavélakerfin.“



Anna Margrét Káradóttir
Má ekki láta hræðsluna stjórna: Anna Margrét Káradóttir

Anna hefur aldrei fundið til ótta en finnur nú til öryggisleysis. „Ég bjó sjálf í útlöndum og var óhrædd við að fara allra minna ferða ein, sama átti við hér heima. En ég verð líka að viðurkenna að ég hef oft á tíðum fengið skammir frá fólkinu mínu fyrir að vera of kærulaus í þessum málum og er búin að lofa að taka mig á.

Ég verð að viðurkenna að núna er óhugur í manni og sem dæmi þá þurfti ég að fara niður í bæ að vinna (dj-a) síðastliðið föstudagskvöld og í fyrsta skipti kveið ég því að fara niður í bæ. Það var afar sérstök tilfinning. Miðbærinn hefur alltaf verið mér afar kær eftir að hafa unnið þar, búið þar og skemmt mér þar, en allt í einu var ég hrædd við að fara þangað. En maður má ekki láta hræðsluna stjórna sér. Maður er bara meðvitaðri um umhverfið og fólkið í kringum sig núna.“

Hún segir ástæðuna þá að flestir tengi við aðstæður sem Birna var í.

„Ég held að við séum mörg hver smeyk og hrædd þessa dagana því við tengjum svo mikið við þetta og höfum bara oft verið í þessum sporum, að labba ein heim eftir að hafa verið að skemmta okkur. Ég persónulega trúi kannski alltof mikið á það góða, svo það er ákveðið traust farið. En enn og aftur, þá má maður ekki láta það stjórna sér.“

Anna segir nauðsynlegt að bregðast skynsamlega við.

„Ég tel það ekki bara mikilvægt heldur bara nauðsynlegt að auka fjárframlög til löggæslu. Sá peningur gæti farið í að efla löggæslu enn frekar, gera lögreglu sýnilegri til dæmis niðri í bæ, sérstaklega þegar staðir eru að loka. Tökum sem dæmi menningarnótt, þar er gæsla mjög sýnileg. Svo þarf klárlega líka að skipta út úreltum myndavélum fyrir nýrri. Það þarf líka að bæta lýsingu á götum bæjarins og í almenningsgörðum. Klambratún þarf til dæmis alvarlega á lýsingu að halda. Svo er þetta líka undir okkur sjálfum komið, passa upp á hvert annað, líta eftir hvert öðru, skipta sér af þegar manni finnst það eiga við og bara vera til staðar fyrir hvert annað. Vera dugleg að láta vita af okkur líka. Við þurfum líka að vera dugleg að fræða elsku ungmennin okkar um að bera virðingu fyrir hvort öðru, svo það sé þeim eðlilegt frá upphafi.“



Tanja M. Ísfjörð
Óttinn hamlar: Tanja M. Ísfjörð

Tanja segist alla tíð hafa verið hrædd við að vera ein á gangi, það veitir henni helst öryggiskennd að hafa hundana sína með. Hún gerir ráðstafanir þegar manneskja verður á vegi hennar.

„Ef ég tel hana hafa séð mig þá tala hærra í símann til að sýna að ég sé með „vitni“. Ef ég held að manneskjan hafi ekki séð mig þá hleyp ég eins hratt og ég get, finn mér aðra leið og óttast  það versta þangað til manneskjan er farin, manneskja sem vill mér eflaust ekkert illt. Manneskja sem veit kannski ekki einu sinni af mér,“ segir Tanja og lýsir óttatilfinningunni.

„Ég fæ verk í brjóstið, finn hjartað slá hraðar. Stundum verður erfitt að anda og ég finn fyrir dofa í höndum og fótum, jafnvel svimar mig og verður óglatt. Ég svitna, finn hvernig hendurnar verða kaldar. Þetta eru allt kvíðaeinkenni. Ég, 21 árs ung kona, fæ kvíðaeinkenni við það að fara út með hundana mína í göngutúr. Eðlilegt? Nei.“

Hún segist sjaldan fara út að skemmta sér í miðborginni vegna hræðslu.

„Í eitt af þeim fáu skiptum nýtti maður sér sér ölvun mína og reyndi að ná mér inn á klósett á veitingastaðnum Austur. Ég náði sem betur fer að brjótast burt frá honum og vinkona mín kom mér í öruggar hendur. Eftir það hef ég því miður alltaf tamið mér að vera umkringd vinum og labba aldrei ein. Það er eitthvað sem á ekki að líðast. Að mínu mati á maður ekki að kenna börnunum sínum að passa sig – heldur á að kenna þeim að brjóta ekki á öðrum. Þannig að núna er ég í þversögn við sjálfa mig og get engan veginn ákveðið hvernig skilaboðum ég á að koma til dóttur minnar þegar að því kemur,“ segir hún og bendir á það hvernig óttinn hamlar henni að njóta þess að vera ein.

„Ég get ekki hlustað á tónlist þegar ég labba ein, hvort sem það er í göngutúr með hundana mína eða heim af djamminu. Ég þarf að vera viðbúin öllu, geta hlustað eftir hljóðum – svo lítið sem hljóð í trjánum veldur mér þvílíkum ugg og eitthvað af ofantöldum kvíðaeinkennum gerir viðvart við sig. Ég labba ekki ein án þess að gera einhvers konar ráðstafanir - að vera með einhvern á línunni, tilbúin að segja viðkomandi staðsetninguna mína og að hringja í Neyðarlínuna. Ef enginn svarar mér þá er ég með tilbúið „112“ í símanum. Ég geng oft með lykla í höndunum þó ég viti ekki almennilega hvað ég ætla mér að gera við þá ef ég lendi í einhverju.

Ég er alltaf í varnarstöðu – tilbúin að hlaupa, öskra eða berjast.

Það er ekkert eðlilegt við það að þegar kona ætlar ein út, hvort sem það er til að labba heim af djamminu eða til að fá hreyfingu, að þá óttist hún um öryggi sitt – jafnvel um líf sitt. En málið er að þú þarft ekki einu sinni að vera einhvers staðar úti í skógi til þess að vera í hættu. Þú getur þess vegna verið inni á skemmtistað eða heima hjá þér.

Konur úti um allan heim upplifa þetta. Nákvæmlega þetta.“



Freyja Ágústsdóttir
Rökstuddur ótti: Freyja Ágústsdóttir

Freyja þykist tala í símann þegar hún gengur ein heim eftir miðnætti. Hún segir óttann rökstuddan enda sé það staðreynd að konum sé byrlað eitur um hverja helgi.

„Ég hef upplifað ótta við að vera ein á gangi á kvöldin frá því í gagnfræðaskóla en þá byrjaði ég á að þykjast tala í símann á leiðinni heim. Í dag finn ég helst fyrir ótta ef ég labba ein heim eftir miðnætti eða þegar ég er úti að skemmta mér. Ég veit ekki hvort strákar tengi við þetta líka en ég veit að flestar vinkonur mínar upplifa sömu tilfinningu og gera ýmsar ráðstafanir eins og að tala við einhvern í símann á leiðinni heim eða jafnvel halda í lyklana sína ef eitthvað skyldi gerast.

Staðreyndin er sú að það er verið að byrla konum eitur um hverja helgi í þeim tilgangi að gera þeim mein og konur eru áreittar einar úti á götu með ýmsum hætti. Ég tel það mikilvægt að beina athygli að stöðu kvenna í þessum málum og nauðsynlegt að uppræta það viðhorf að það sé á ábyrgð stúlkna að vera ekki á röngum stað á röngum tíma heldur horfast í augu við þetta samfélagslega vandamál sem við öll berum ábyrgð á.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×