Erlent

Fimm milljónir Sýrlendinga á flótta

Kjartan Kjartansson skrifar
Flóttafólk á grísku eyjunni Lesbos við Grikkland. Myndin er úr safni.
Flóttafólk á grísku eyjunni Lesbos við Grikkland. Myndin er úr safni. Vísir/epa
Borgarastríð sem staðið hefur yfir í sex ár hefur nú hrakið fimm milljónir Sýrlendinga úr heimalandi sínu, að sögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Um helmingur 22 milljóna íbúa landsins hafa flúið heimili sín.

Aukin átök í Aleppo á síðasta ári varð til þess að hátt í 50.000 manns flúðu yfir landamærin til Tyrklands. Þar með fór fjöldi Sýrlendinga sem hefur flúið land frá því að borgarastríðið hófst árið 2011 í fyrsta skipti yfir fimm milljónir.

The Guardian segir að þrjár milljónir Sýrlendinga haldi nú til í Tyrklandi. Í Jórdaníu eru 675.000 sýrleskir flóttamenn skráði hjá SÞ en þarlensk stjórnvöld segja að þeir séu í raun um 1,3 milljónir. Þá telja SÞ að um milljón Sýrlendinga sé í Líbanon.

Fjöldi Sýrlendinga hefur einnig sest að eða sóst eftir hæli í Evrópu. Flóttamannastofnunin hvetur Evrópubúa til að „kjósa ekki um mannúð“ í kosningum sem fara fram í Frakklandi og Þýskalandi á þessu ári.

Hægriöfgamenn í löndunum tveimur og fleiri hafa barist gegn móttöku flóttafólks. Hefur flokkum þeirra vaxið ásmegin víða í Evrópu undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×