Uppljóstrarinn Edward Snowden fær þriggja ára framlengingu á landvistarleyfi sínu í Rússlandi. Fréttastofa The Guardian greindi frá í gær og hefur eftir heimildarmanni að Snowden verði ekki framseldur til Bandaríkjanna, jafnvel þótt samskipti landanna batni þegar Donald Trump tekur við forsetaembætti.
Lögfræðingur Snowdens, Anatoly Kucherena, sagði í samtali við fréttastofuna RIA Novosti að leyfið hefði verið framlengt til ársins 2020. Þá sagði Kucherena jafnframt að Snowden gæti sótt um ríkisborgararétt frá og með næsta ári.
Fyrr um daginn hafði Maria Zakharova, talskona utanríkisráðuneytis Rússa, greint frá því á Facebook að landvistarleyfi Snowdens hafi verið framlengt um nokkur ár.
Tilkynningin kom degi eftir að Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti, stytti fangelsisdóm uppljóstrarans Chelsea Manning. Hún átti upphaflega að sitja í fangelsi í 35 ár en verður þess í stað sleppt í maí.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Snowden verður áfram í útlegð
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
