Innlent

Stefán Karl stígur á leiksvið á ný: „Ég er með sviðsræpu og verð að komast á svið“

Jakob Bjarnar skrifar
Hilmir Snær og Stefán Karl við æfingar í gær. Til stendur að sýna 10 sinnum og verður fyrsta sýningin nú í lok mánaðar.
Hilmir Snær og Stefán Karl við æfingar í gær. Til stendur að sýna 10 sinnum og verður fyrsta sýningin nú í lok mánaðar. Steinunn Ólína
Stefán Karl Stefánsson og Hilmir Snær Guðnason eru nú að æfa leikritið Með fulla vasa af grjóti. Til stendur að sýna verkið tíu sinnum í Þjóðleikhúsinu, í mánuð og verður fyrsta sýning 31. ágúst. Ef að líkum lætur munu færri komast að en vilja. Viðbúnaður er í miðasölunni í Þjóðleikhúsinu.

Stefán Karl hefur átt við alvarleg veikindi að etja, svo alvarleg að fáir hafa reiknað með eða gert sér vonir um að hann myndi stíga á svið aftur. En, aldrei að segja aldrei, eins og þar stendur.

Ætti varla að vera á fótum

„Ég kem sjálfum mér á óvart á hverjum degi. Ég hjóla 20 kílómetra á dag, syndi líka,“ segir Stefán Karl þegar blaðamaður Vísis spyr hvaðan honum komi krafturinn í þetta verkefni?

„Já, jú, ekki er nema bara mánuður síðan ég steig upp af morfínkómanu á spítalanum þá eftir að hafa farið í gegnum sterkustu geislameðferð sem um getur, sterkustu lyfjameðferðina en sex líffæri mín voru numinn brott alveg eða að hluta. Já, þessi Whipple procedure er einhver erfiðasta aðgerð sem gerð er á mannslíkamanum.

Stefán Karl og Hilmir Snær rýna í handritið. Leikritið Með fulla vasa af grjóti er lykilverk í ferli þeirra beggja.Steinunn Ólína
Þar er gerður nýr meltingarvegur á þig, þú ert endurtengdur... það voru teknir 23 sentímetrar af maganum á mér og allt endurtengt. Systemið. Miðað við það ætti ég varla að standa í fæturna, hvað þá að ætla að leika þessa sýningu. En, ég þakka það fyrst og fremst þeim stuðningi sem maður er að fá, enn og aftur, héðan og þaðan og almenna jákvæðni. Hilmir var ekki lengi að segja já þegar þetta var nefnt en höfum við þó sagt að þetta væri komið gott, þegar við lékum þetta á sínum tíma. En, nú ætlum við að kíla á þetta. En þetta verður líka í síðasta sinn, við lofum því.“

Ian McElhinney á leið til landsins

Leikritið Með fulla vasa af grjóti, með þeim Hilmi Snæ og Stefáni Karli, var frumsýnt á Íslandi í árslok 2000 og hlaut þá frábærar viðtökur en sýningar þá urðu 180 sýningar og yfir 40 þúsund manns sáu verkið.

„Þeir eru yndislegir náungar og það er mjög gott að vinna með þeim," sagði norður-írski Game of Thrones-leikarinn Ian McElhinney, leikstjóri sýningarinnar í tilefni þess að tekinn var upp þráðurinn 12 árum síðar. Þá gengu sýningar einnig von úr viti en Ian er væntanlegur til landsins 23. þessa mánaðar til að fara yfir vinnu þeirra Stefán og Hilmis. Með honum kemur Marie Jones, höfundur verksins en þau Marie og Ian eru hjón.

Kátur Þjóðleikhússtjóri

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri er kátur. Segir að þessum tíu sýningum verði komið fyrir í dagskrá leikhússins sem þétt var fyrir, en verið er að æfa og sýna aðrar sýningar í septembermánuði. Með fulla vasa af grjóti var rómuð sýning.

Hilmir Snær var ekki lengi að segja já, þegar hugmyndin var borin upp við hann.Steinunn Ólína
„Þeir eru æðislegir. Fyrir mig sem leikara ... maður verður svo glaður að sjá, báðir mjög tæknilega góðir, Hilmir og Stebbi, en þeir fóru all in, léku þetta í botn á hverri einustu sýningu. Þeir eru svo örlátir leikarar. Það hefði verið svo hægur leikur fyrir þá að gera þetta á tækninni, en þeir eru bara ekki þannig. Þeir eru gamlir hjartans vinir og fyrir þá er þetta mikilvægt,“ segir Ari sem segir Stefán Karl ótrúlega kraftmikinn miðað við það að í vor var verið að skera enn og aftur meinvörp úr lifrinni í honum. Ari segir það einstaklega virðingarvert hvernig Stefán vill nota tíma sinn, en það eigum við náttúrlega öll að gera og hafa til eftirbreytni því tími er afstæður.

Að segja krabbameininu að fokka sér

Vísir tók þennan þráð upp við Stefán Karl sjálfan. Hann segir húmor bestu leiðina til að takast á við þennan vágest sem krabbamein er. Þó samúð sé auðvitað vel þegin þá er mikilvægt að hún sé ekki vemmileg, og svartur húmor sé í raun besta leiðin til að segja krabbameininu að „fokka sér“. Komdu bara ef þú þorir:

Stefán Karl segist vera með svipsræpu, hann verði bókstaflega að komast á svið: Sem stendur er ég meinlaus. Meinlaust grey. En, við reiknum með því frekar en ekki að það taki sig upp aftur.Steinunn Ólína
„Þetta ferli, að vera lagður inn á spítalann og fá nýjan meltingarveg, hvernig hjúkkurnar standa í kringum þig og bíða eftir því að þú skítir í fyrsta skipti, þegar einn viðrekstur er stórkostlegur áfangasigur í lífi þínu. Já, léttúð er mikilvæg,“ segir Stefán Karl og setur á stutta ræðu yfir blaðamanni Vísis sem freistast til að vera alveg hjartanlega sammála viðmælanda sínum.

Mærðin yfir dauðanum

„Við Íslendingar höfum alist upp við að umgangast dauðann með því að mæta við kistulagningar, horfa á afa og ömmu sem skrælnuð lík og hlusta svo á prest blaðra eitthvað... allt er þetta svo mærðarlegt og mikill vesaldómur. Þetta eru svo mikil þyngsli sem býður uppá þunglyndi. Hvar er gleðin? Hvar er Mexíkó? Eins og Dr. Seuss segir: „Don't cry because it's over, smile because it happened.“ Það er þetta sem ég hef lært í gegnum þessi veikindi mín, það sem ég ætla að gera fram á síðasta dag, með Grjótið, að fagna lífinu, fagna hverjum mómenti sem eftir er. Og ég vil fá sem flesta til að koma og fagna því með mér. Því við eigum að fagna því.

Við eigum ekki að gráta vegna þess að einhverju er að ljúka, við eigum að brosa og hlæja yfir því að eitthvað varð.

Við urðum fyrir valinu, við fengum tækifærið og eigum að vera þakklát fyrir það. Við eigum að fagna því. Þjóðhátíðin er ekkert búin.“

Lykilverk á ferli Stefáns

Með fulla vasa af grjóti er lykilverk í ferli Stefáns Karls. Í afar lofsamlegum leikdómi Elísabetar Brekkan frá árinu 2012 segir meðal annars: „Spriklandi fimi leikaranna hvort heldur var í hlutverki kvenna eða karla var einstök.“

Stefán segir að sér þyki óendanlega vænt um þetta leikrit og það að hafa fengið að vinna verkið með Hilmi Snæ.

Með fulla vasa af grjóti hlaut afar góðar viðtökur á sínum tíma.
„Við höfum átt mjög sérstakt samstarf í gegnum þetta. Við höfum fengið tækifæri til að gera tilraunir á áhorfendum og okkur sjálfum. Hvað virkar og hvað virkar ekki. Leikið þetta og grafarþögn í salnum og svo þannig að þakið hefur ætlað að rifna af húsinu,“ segir Stefán Karl og lýsir því að það hafi verið einstakt tækifæri að fá að vinna verkið með Ian leikstjóra og svo Marie Jones, höfundi verksins.

Lykilverk í ferli Stefáns Karls

Hugmyndin að því að setja verkið upp nú þriðja sinni er í raun komin frá Gísla Rúnari Jónssyni, vini Stefáns Karls.

„Sem kemur málinu ekki við nema að því leyti að þar sem ég lá í sjúkrarúmi allan júlímánuð, og fékk að vita að ég væri kominn með 4. stigs krabbamein og að það væri lítið hægt að gera. Maður getur ekki gert hvað sem er, en maður vill gera eitthvað. Og er með sviðsræpu, ég verð að komast á svið.

Hilmir og Stefán hafa sýnt Með fulla vasa af grjóti þannig að grafarþögn ríkti í salnum og svo þannig að þakið hefur ætlað að rifna af húsinu.Steinunn Ólína
Gísli Rúnar var að velta því fyrir sér hvort þetta hafi einhvern tíma verið tekið upp þá á kameru, en það hefur ekki verið gert," segir Stefán Karl, að þannig sé hugmyndin í raun til komin.

„Skemmtilegri sýningu er ekki hægt að leika fyrir tvo leikara sem hafa unun af leiktækni trúðsins og gamanleikarans. Og ekki síður af því að galdurinn við þetta verk er ekki bara einhver fíflagangur heldur einlægnin og sannleikurinn. Sá er lykillinn að þessari sýningu, þetta er alvöru fólk þó þetta sé mikill karikatúrleikur, stórir karakterar þá er þetta alvöru fólk og að gera því skil er áskorun fyrir leikara eins og okkur Hilmi. Við lékum sýninguna 250 sinnum í það heila. Þrátt fyrir það er maður statt og stöðugt að hitta fólk sem segist hafa misst af þessari sýningu og grætur það. Nú er sem sagt tækifæri.“

Ekki hægt að segja til um hvað mikið er eftir

Stefán Karl vill ekki gefa það út að þarna verði settur punktur við sinn feril.

„Nei, ég geri það ekkert frekar. Ég er í þessari erfiðu aðstöðu að ég er ekkert að telja niður neitt frekar en annað. Sem stendur er ég meinlaus. Meinlaust grey. Það er ekkert krabbamein í mér, það var skorið. Hins vegar þá reiknum við frekar en ekki með að það komi fljótt aftur. Þá verður það skoðað; verður hægt að taka það eða verður ekki hægt að taka það og það er limbóið sem ég er að sigla inní núna, á næstunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×