Lífið

Segir sjálfsmyndir hafa bjargað lífi sínu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Cloe Jordan var tíður gestur á sólarströndum áður en hún veiktist.
Cloe Jordan var tíður gestur á sólarströndum áður en hún veiktist. Instagram
Hin 21 árs gamla Cloe Jordan frá Wolverhampton í Englandi heldur því fram fullum fetum að bikinísjálfsmyndir hafi bjargað lífi sínu.

Jordan greindist með sortuæxli fyrr á þessu ári eftir að hún fór til læknis og spurðist fyrir um hvort hægt væri að fjarlægja fæðingarblett sem hún var með á maganum.

Hún segist í samtölum við fjölmiðla ytra hafa skammast sín fyrir fæðingarblettinn sem hún taldi skemma bikinísjálfsmyndirnar sínar.

Hún hafi því ákveðið að slá til og sjá hvort ekki væri hægt að taka hann. Þegar til læknisins var komið var hann ekki lengi að senda hana í frekari rannsóknir enda sagði hún að bletturinn hefði bæði stækkað og breytt um lögun. Læknirinn tjáði henni að það gæti verið til marks að um húðkrabbamein gæti verið að ræða, eins og kom á daginn.

Hér má sjá svarta fæðingarblettinn sem farið hafði í taugarnar á Cloe.
Sortuæxlið, sem hafði dreift úr sér, hefur nú verið fjarlægt og deildi Jordan mynd af örinu með fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum svo þeir geti lært af mistökum hennar.

„Ég hef verið með þennan blett frá fæðingu og þegar hann fór að taka breytingum síðasta sumar pældi ég ekkert mikið í því. Hann hefur lengi farið í taugarnir á mér og alltaf þegar ég fór í bikiní eða fallega nærföt og tók sjálfsmynd fannst mér hann þvælast fyrir,“ lýsir Jordan.

Hún varar fólk við sólbekkjum og segist ætla að forðast sólböð það sem eftir lifir ævinnar. „Ég hvet alla sem hafa áhyggjur af húðinni sinni að fara til læknis og láta líta á sig. It's better to be safe than sorry.“

Jordan segir krabbamein hafa eyðilagt líkama sinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×