Enski boltinn

Spáir því að Conte fari innan árs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Conte.
Antonio Conte. Vísir/Getty
Þrátt fyrir að Antonio Conte hafi gert Chelsea að Englandsmeistara í vor telur Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur Sky sports, ekki að hann verði langlífur í starfi.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef að ég myndi sitja hér eftir tólf mánuði og hann væri enn knattspyrnustjóri Chelsea,“ sagði hann. „Ég tel að hann sé sú týpa af stjóra sem mun ekki taka vel í afskiptasemi stjórnenda félagsins.“

Conte hefur sagt að tímabilið fram undan verði það erfiðasta á ferlinum en hann mun vera ósáttur við hvernig Chelsea hefur vegnað á leikmannamarkaðnum í sumar.

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hefur margsinnis sýnt að hann er óhræddur við að að skipta um knattspyrnustjóra ef honum sýnist svo. Hann rak Jose Mourinho tvívegis og þeir Carlo Ancelotti, Luiz Felipe Scolari og Claudio Ranieri entust ekki í tvö ár í starfi.

„Chelsea er með sitt viðskiptamódel og það er afar óvægið. Knattspyrnustjórinn er ekki í jafn miklum metum og hjá öðrum félögum og finnst mér Chelsea svipa til Real Madrid að því leyti,“ sagði Carragher enn fremur.

„Þeir óttast ekki að reka knattspyrnustjórann sinn eftir eitt ár í starfi en það er í raun ekki hægt að kvarta. Ég held að ekkert félag hafi unnið fleiri titla síðan að Abramovich kom inn í deildina [árið 2003].“

Chelsea tapaði fyrir Arsenal um helgina er liðin mættust í leiknum um Samfélagsskjöldin. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×