Erlent

Þekktasti ferðamannastaður Möltu hrundi í sjóinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessa sjón er ekki hægt að sjá lengur.
Þessa sjón er ekki hægt að sjá lengur. Vísir/Getty
Þekktasti ferðamannastaður Möltu, Azure-glugginn svokallaði, glæsilegur steinbogi, hrundi í sjóinn í dag. Forsætisráðherra Möltu segir að fregnirnar séu „átakanlegar“. BBC greinir frá.

Veður hefur verið slæmt undanfarna daga á Möltu og segja sjónarvottar frá því að steinboginn hafi hrunið í heilu lagi í miklum öldugangi. Varað hefur við því að veðrun og landrof myndi sverfa að steinboganum þótt niðurstöður skýrslu frá árinu 2014 gáfu til kynna að steinboginn myndi þola áganginn í nánustu framtíð.

Sjá má stall steinbogans en annað er hreinlega horfið.Vísir
Staðurinn er afar vinsæll ferðamannastaður, ekki síst eftir að steinboganum brá fyrir í Game of Thrones þáttunum vinsælu. Yfirvöld í Möltu höfðu reynt hvað þau gátu til þess að minnka ágang ferðamanna á steinbogann og voru lagðar sektir við því að ganga yfir steinbogann, án teljandi árangurs, en vinsælt var að stökkva af steinboganum í sjóinn.

Heimamenn flykktust að eftir að fregnir bárust af því að steinboginn væri horfinn um aldur og ævi og sagði ráðherrann Anton Refalo að hvarf steinbogans væri líkt því að „missa hluta úr sjálfum sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×