Erlent

Vilja byggja upp eigin árásagetu

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugavarnarkerfi af gerðinni PAC-3 í Japan.
Eldflaugavarnarkerfi af gerðinni PAC-3 í Japan. Vísir/AFP
Áhrifamiklir ráðamenn í Japan hafa verulegar áhyggjur af eldflauga- og kjarnorkuvopnatilraunum Norður-Kóreu og vilja byggja upp árásagetu Japan. Þannig geti Japan jafnvel gert eigin árásir á skotstaði Norður-Kóreu. Hingað til hafa yfirvöld í Japan ekki viljað koma upp eigin sprengjuflugvélum og eldflaugum, en slíkt myndi kosta ríkið mjög mikið.

Þess í stað hefur Japan treyst á bandamenn sína í Bandaríkjunum.

Aukin hernaðarumsvif Norður-Kóreu og þá sérstaklega tilraun þeirra um helgina, sem líkti eftir kjarnorkuárás á herstöðvar Bandaríkjanna í Japan, hafa hins valdið usla í Japan.

„Ef ráðist yrði á okkur með flugvélum og skipum myndum við skjóta á móti. Að skjóta á land sem er að skjóta eldflaugum á okkur er ekkert öðruvísi. Tæknin hefur breyst og það sama má segja um eðli átaka,“ segir Itsunori Onodera, fyrrum varnarmálaráðherra Japan, við Reuters fréttaveituna.

Það gæti sum sé verið betri áætlun að skjóta bogamanninn, frekar en að skjóta örvarnar hans niður, eins og Reuters orðar það.

Eftir seinni heimstyrjöldina var það tekið fram í stjórnarskrá Japan að varnarlið landsins væri einmitt það. Varnarlið. Japanar hafa hins vegar verið að teygja á því ákvæði stjórnarskrárinnar um árabil.

Vopn sem gætu verið notuð til að gera árásir á Norður-Kóreu myndu einnig drífa að austurströnd Kína og slíkri uppbyggingu yrði líklega ekki tekið fagnandi í Peking.

Ondero segir þó að Kína búi yfir fjölda eldflauga sem þeir geti skotið að Japan. Alþjóðasamfélagið myndi líklega ekki sína mikla samúð.

Einn heimildarmaður Reuters segir að ef fleiri en þremur eldflaugum yrði skotið að Japan, væri það of mikið fyrir eldflaugavarnarkerfi landsins. Mikil uppbygging á því kerfi er þó fyrirhuguð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×