Aðstoðarmaður Theresu May segir að hún ætli sér að halda áfram sem forsætisráðherra Bretlands. May er undir miklum þrýstingi innan Íhaldsflokksins og misheppnuð ræða hennar á flokksþingi í gær hefur orðið til að bæta gráu ofan á svart.
Öll spjót standa nú á May en öfl innan Íhaldsflokksins hafa reynt að grafa undan formennsku hennar. Fremstur í flokki hefur farið Boris Johnson, utanríkisráðherrann, sem hefur leikið einleik þegar kemur að stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi gönguna úr Evrópusambandinu.
„Ég veit að hún er eins ákveðið og nokkru sinni áður í að halda starfinu áfram, hún telur það skyldu sína að gera það þannig að hún mun halda áfram og hún mun ná árangri með þessari ríkisstjórn,“ sagði Damian Green, staðgengill forsætisráðherra, við breska ríkisútvarpið BBC í dag.
Allt gekk á afturfótunum þegar May ávarpaði þing Íhaldsflokksins í gær. Hrekkjalómur truflaði ræðu hennar með því að afhenda henni „uppsagnarbréf“, hún fékk óstjórnlegt hóstakast og á endanum byrjaði hluti af sviðsmyndinni fyrir aftan hana að detta í sundur.
Ed Vaizey sem May rak sem menningarmálaráðherra þegar hún tók við forsætisráðuneytinu í fyrra segir að ræða hennar hafi fullvissað marga þingmenn flokksins um að hún þurfi að stíga til hliðar, að því er segir í frétt The Guardian.
Staða May veiktist ekki síst eftir að hún boðaði óvænt til kosninga fyrr á þessu ári þegar skoðanakannanir bentu til yfirburðasigurs Íhaldsflokksins. Kosningarnar fóru þó á annan veg og þurfa íhaldsmenn nú að reiða sig á íhaldssaman flokk norður-írskra sambandssinna sem verja minnihlutastjórn þeirra falli.
May ætlar að halda áfram sem forsætisráðherra Bretlands
Tengdar fréttir
Allt gekk á afturfótunum hjá May á þingi Íhaldsflokksins
Ræða Theresu May breyttist í farsa þar sem hvert uppákoman rak aðra.